
Við ákváðum að taka þennan slag með þessari aðgerð þar sem farið er inn í ilina með litlum skurði og liðkað fyrir eitthvað af þessum böndum þar. Þetta heitir eitthvað voða flott á latínu. Við mættum í gærmorgun upp í einhverja læknastöð í Glæsibænum, klárlega staður þar sem ríka og fræga fólkið á Íslandi lætur slétta úr sér og lyfta hinu og þessu. Drengirnir svæfðir, aðgerðin sjálf tók mjög stuttan tíma og eftir að þeir voru búnir að hrista af sér svæfinguna var farið heim, 2 1/2 tími með öllu.

En samkvæmt smáaletrinu mega þeir ekki stíga í fæturnar fyrr en á föstudagskvöld í fyrsta lagi. Mega fara í skólann á mánudaginn og svo er bara mæting í tjékk eftir tvær vikur og viku eftir það eiga þeir að vera orðnir færir í flest. Dagurinn í gær gekk þokkalega en þar sem ég á ekki hjólastóla (ekki það að íbúðin bjóði upp á það) þá þarf að handlanga þá hvert sem þeir þurfa að fara. Logi Snær er talsvert meðfærilegri en Ísak Máni enda er sá síðari orðinn einhver 45 kíló og tekur í. En þetta er víst bara verkefni sem þarf að leysa, við hugsum um daginn í dag og svo verður dagurinn á morgun síðasti handlangaradagurinn. Það verður talsverð viðbrigði að hafa engar fótbolta- eða körfuboltaæfingar til að skoppast í kringum um. Ég tala nú ekki um keppnislausar helgar, ég veit bara ekki hvað við eigum af okkur að gera.
Góðu fréttirnar í þessu öllu er þó að í einhverri skoðuninni hjá skurðlækninum var Daði Steinn með í för og læknirinn gat ekki stillt sig um að taka út lappirnar á honum. Þær líta bara vel út þannig að ég vonast til að við séum hólpin, skárra væri það en að þetta tækist ekki í þriðju tilraun.
Engin ummæli:
Skrifa ummæli