þriðjudagur, febrúar 07, 2012

Ofurskál númer 46

Mætti hálf syfjaður í vinnuna á mánudagsmorgni, þó ferskari en ég hélt. 4 tíma svefn er svona í það minnsta fyrir mann á mínum aldri. En ég var sáttur. Superbowl, úrslitaleikurinn í ameríska fótboltanum að baki og mínir menn í New York Giants hirtu dolluna í mögnuðum leik. Sigruðu Þjóðernissinnana frá New England, endurtekið efni frá 2008, ef leikurinn um helgina var flottur þá var sá frá 2008 algjört rugl í gæðum. Sagði það þá og segi það enn, ég elska þessa íþrótt og skammast mín ekki neitt fyrir það. Stöð 2 gerði mér nú reyndar smá óleik, ekkert alvarlegt þó. Alla vikuna fyrir leikinn auglýstu þeir að leikurinn yrði sýndur á ESPN America sem er á fjölvarpinu hjá þeim. Ég nennti ekki að taka sjénsinn á að horfa á leikinn í gegnum netið í einhverjum misgóðum gæðum og fékk mér því fjölvarpið í einn mánuð. Þurfti reyndar ekki að greiða beint fyrir það með peningum heldur átti ég inni einhverja vildarpunkta sem ég gat notað. Nokkrum klukkutímum fyrir leik upplýstu þeir hinsvegar að þeir myndu skipta yfir á ESPN stöðina á Stöð 2 Sport rásinni, sem ég er með. Þannig að ég hefði ekki þurft að fórna þessum punktum mínum fyrir fjölvarpið í einn mánuð. Skítt með það, ég hlýt að geta fundið mér eitthvað í kassanum út þennan mánuð.

Þessu tengt, skil ekki hvernig mér tókst að finna íþróttabúð steinsnar frá hótelinu þegar við Sigga vorum í NY þar sem hægt var að fá Giants treyjur og labba þaðan út, tvisvar, án þess að versla mér Manning-treyju. Ófyrirgefanlegt og mun ekki gerast aftur.

Engin ummæli: