sunnudagur, mars 25, 2012

Jakkafatahelgi

Nokkuð þéttri helgi að ljúka.  Sigga náði sér í einhvern skít og var heima lasin á föstudaginn en þurfti að skríða saman á methraða.  Árshátíð hjá vinnunni minni á laugardeginum, haldin í Silfursalnum, held ég hann heiti, þarna á Hótel Borg.  Matur og skemmtiatriði með nettu Bollywood þema sem var allt í lagi, toppaði reyndar ekki Hollywood pakkann frá því árinu áður.  Maður var nú bara rólegur, kominn á þennan aldur, og kominn í bælið tiltöllega snemma.  Partýgírinn orðinn alveg handónýtur, veit ekki hvað þetta er.  Maður þarf kannski bara að panta tíma einhversstaðar og láta athuga skiptinguna.
Nánast óþarfi að fara úr fötunum því það var mæting upp í Bröttuhlíð daginn eftir í skírnarveislu.  Guðrún að skíra nýja drenginn, hann Steinar Inga.  Ekki skortur á veitingum sem fyrri daginn á þeim bænum en ég viðurkenni það fúslega að fyrsta verk við heimkomuna í dag var að skella mér í náttbuxurnar og leggjast á meltuna.

Engin ummæli: