laugardagur, maí 19, 2012

Úti að aka

Það telst líklega seint gáfulegt að pósta lýsingar á lögbrotum og láta svo myndir fylgja með til að taka af allan vafa, en við látum samt flakka.

Núna er sæmilega uppfærð bloggsíða kostur, því ekki man ég nokkurn skapaðan hlut.  Ísak Máni fékk að taka í stýrið á bílnum okkar í júlí 2006, rétt orðin 7 ára gamall og var það fært til bókar -hér-.  Það þurfti því að fara að gera eitthvað með miðjudrenginn svo ekki væri brotið á hans hlut, en sá orðinn 8 ára gamall og ekkert farið að gerast í þessum efnum.  Nú skiptist fólk væntanlega í tvo hópa, annars vegar finnst mönnum þetta frekar lélegt af minni hálfu en svo aðrir sem súpa hveljur og benda mér á að hægt sé að nálgast æfingaleyfið við 16 ára aldur, fyrr sé þetta ólöglegt með öllu.

 Jæja, Logi Snær fékk sem sagt að taka í stýrið í dag, staðsetning brotsins var á svipuðum stað og með Ísak Mána á sínum tíma, eitthvað smá afdrep í Kolgrafarfirði en karlpeningur fjölskyldunnar skaut í Grundarfjörð um helgina á meðan mamman var að endurhlaða rollurafhlöðuna sína handan fjallgarðsins.  Honum fannst þetta spennandi, en eins og oft áður, fannst á sér brotið hvað varðar tíma og lengd rúntsins miðað við aðra sem fengu að keyra.

Ísak Máni fékk sem sagt að keyra líka.  Núna bara einn í sætinu og þurfti þar af leiðandi að sjá um bremsu og bensíngjöf sjálfur.  Sjálfskiptingin reddaði honum hvað kúplinguna varðaði, veit ekki hvort ég hefði boðið í að fara líka yfir það með honum.

Svo fór ég eiginlega alveg með kerfið þegar ég gaf eftir þeim yngsta sem sat aftur í með þvílíka skeifu enda fannst honum að hér væri verið að svína big-time á sér.  Hann fékk því að taka einn hring að nafni til og færist því til bókar sem sá yngsti ökuþórinn af þeim bræðrum, rúmlega 3ja ára gamall.

Ábyrgur fjölskyldufaðir einn með börnin kveður í bili.

Engin ummæli: