miðvikudagur, júní 19, 2013

Þjóðhátíðardagurinn

Tókum svona hressandi 17. júní á þetta.  Logi Snær álpaði út úr sér kvöldið áður að hann langaði til að taka þátt í Mikka Mús maraþoninu sem fór fram í Laugardalnum þarna um morguninn.  Hann var því skráður og mamman tók ákvörðun um að skrá sig líka til að hlaupa með honum og tryggja það að Daði Steinn fengi þá í staðinn bol og medalíu.  Sigga startaði morgninum með því að hjóla niður í Laugardal til að sækja viðeigandi gögn áður en við fórum á staðinn, mínus unglingurinn.  Sigga og Logi voru klár í að taka þetta alla leið en ég átti að sjá um Daða, planið var að leyfa honum að byrja hlaupið og finna sér svo eitthvað til dundurs á meðan beðið yrði eftir Siggu og Loga.  Daði var hinsvegar grjótharður í byrjun og reykspólaði af stað og mér leist ekkert á þetta, hvar þetta myndi enda.  Hlaupið var náttúrulega í lengri kantinum fyrir svona aldur, einhverjir rúmir 4 km.  Eitthvað gekk mér illa að finna undankomuleið úr brautinni enda nóg af sjálfboðaliðum á leiðinni svo voru allir í þvi að passa að enginn villtist.  Á vatnsstöð númer tvö, líklega rúmum einum kílómetra frá upphafinu þá var minns alveg búinn að fá nóg.  Þar náðum við að stytta okkur allverulega leið og komum þvílíkt ferskir inn í lokasprettinn, Daði alveg eins og með rakettu í rassinum.  Þegar ég kom í mark fór ég að hugsa um söguna af maraþonhlauparanum sem tók leigubíl hluta leiðarinnar og kom þvílíkt sigurreifur í markið, líklega til nokkrar útgáfur af svona svindlara sögum, en hey, við Daði vorum ekki formlega skráðir í hlaupið.  Hvíldum okkur aðeins við endamarkið í smástund áður en mamman og Logi komu í mark.  Mamman kom með medalíuna sína og færði Daða og allir sáttir með maraþonið sitt.


Eftir stutt stopp heima var haldið niður í miðbæ, núna með unglinginn innanborðs.  Skiptum liði og tókum nokkra hoppukastala eftir áhugasviði hvers og eins.  Mér fannst svolítið dejavú í gangi þegar Logi og Ísak tókust á í hnefaleikahringnum, man ekki alveg árið þegar Ísak barðist svona við Jökul frænda sinn, þá meira í hlutverki Loga, sem lítilmagninn.  Annars hefðbundið, sleikjó og sviðið við Arnarhól, við Logi duttum inn í Kolaportið áður en allir sameinuðust í heimferð. 

Grill um kvöldið...

Engin ummæli: