miðvikudagur, júní 19, 2013

Man of Steel

Kannski réttast að benda þeim sem eru að villast hérna inn að þetta myndi kallast uppkastspistill, og þá meina ég ekki að textinn hérna fyrir neðan sé eitthvað uppkast.

Fékk nokkra miða á einhverja for-forsýningu af nýju Superman myndinni, tengt vinnunni.  Elstu tveir synirnir voru nokkuð spenntir sérstaklega Logi Snær en sá þriðji fékk vitaskuld ekki að vita neitt.  Ég var í vinnunni en sýningin var klukkan 17:00 og því var planið að stökkva beint úr vinnunni, pikka upp strákana og bruna í bíóið.  Fékk reyndar af því fregnir þegar á daginn leið að Logi Snær væri orðinn eitthvað slappur heima en hann væri samt ákveðinn í að fara.  Náði í strákana, ásamt tveimur félögum hans Ísaks, miðarnir höfðu nefnilega eitthvað fjölgað sér.  Logi Snær klárlega ekki ferskur en ekki til að tala um að hann ætlaði að sitja heima.

Mættum á staðinn og versluðum okkur popp og með því.  En á leiðinni inn í salinn hvítnar hann allur upp og kallar eftir vatni.  Ég sé hvað verða vill, legg frá mér poppið í skyndi á næsta borð og tek stefnuna með hann á næsta klósett.  Næ að hendast inn í klósettið fyrir fatlaða en áður hafði komið smáspýja á gólfið fyrir framan, sem ég næ að þrífa upp á meðan hann klárar ofan í klósettið.  Kemur reyndar ekki mikið þar sem kom síðar í ljós að hann hafði ekki borðað mikið fyrr um daginn.  Á þessum tímapunkti vorum við báðir á því að fara heim.  Nokkrum vatnssopum síðar skipti hann um skoðun og vildi fara á myndina, sem ég ákvað að láta eftir honum.  Taldi þó réttast að fá sæti við endann á sætaröðinni og tiltölulega nálægt útgangnum.  Myndin fór af stað og ég potaði í hann öðru hvoru til að athuga stöðuna en alltaf var hann bara góður, maulandi ostapopp og vatn með því.  Svo kom hléið.  Þá bað hann mig um að fylla á vatnið fyrir sig en vildi koma með.  Við vorum ekki komnir mjög langt þegar ég sá í hvað stemmdi.  Ég tók stefnuna á sama klósett og síðast en mér til mikillar skelfingar kom ég að læstum dyrum þar.  Þá var bara að taka stefnuna á karlaklósettið en þá var þetta orðið of seint, spýjan kom þarna á gólfið, svona gul-ostapopps-gall-drulla.  Ég dröslaði honum inn á karlaklósettið til þess eins að sjá biðröð dauðans þar og allir kamrar uppteknir.  Til baka hentumst við og með slóðina á eftir okkur.  Klósettið fyrir fatlaða enn læst, en opnaðist nokkrum sekúndum síðar og ung dama sem virtist vera nokkuð heilleg kom út.  Við inn og kláruðum ofan í kamarinn og aftur var ég á leiðinni heim.  En aftur fékk ég að heyra að honum liði miklu betur núna.  Ég tók andvarp á þetta og ákvað að fyrst við vorum komnir svona langt þá væri víst alveg hægt að klára þetta.  Frekar enn að fara heim og þurfa svo að koma aftur til að horfa á seinni helminginn af myndinni.  Skröltum út af klósettinu, og starfsmaður á plani var mættur með skúringagræjuna og lyktin á ganginum ekki góð, svo fínt í þetta sé farið.  Við læddumst inn í sætið okkar, búnir að fylla á vatnið.  Ég hafði passað mig á því að henda ekki tóma popppokanum mínum, heldur var klár með hann ef eitthvað myndi gerast.  Ég var heldur stressaðri eftir hléið og var stöðugt að kíkja á Loga til að athuga hvort ekki væri allt í góðu.  Gat ekki beðið eftir því að dramatíska lokaatriðinu lyki og þar með myndinni svo hægt væri að koma sér út.  Staðan var alveg ágæt í lok myndarinnar og ég dreif með hann út í ferska loftið.  Við keyrðum heim en ég þurfti að losa mig við tvo farþega nálægt heima hjá okkur, kunni ekki við annað en að koma þeim heim.  Þegar ég var á bílastæðinu með þann síðari þá sá ég í hvað stemmdi með Loga, dreif hann úr bílnum og þarna á bílastæðinu kom þriðja hrinan.  Eftir þá losun var ekki um annað að ræða enn að keyra síðasta spölinn heim með alla glugga opna.

Úff.

Spurning hvað barnaverndaryfirvöld segja, ég tala nú ekki um að myndin var bönnuð innan 12 ára aldurs.

Engin ummæli: