mánudagur, apríl 27, 2015

Íslandsmeistarar 2015

Ísak Máni og félagar í 10. flokknum hjá ÍR í körfunni áttu glæsilegt tímabil þennan veturinn.  Tvöfaldir meistarar frá því í fyrra í 9. flokknum þannig að pressan var nokkur.  Smávægilegar mannabreytingar á milli ára, 3 leikmenn sem hættu en í staðinn komu 3 frá Val en þessi flokkur dó út á Hlíðarenda núna á milli tímabila.  Flotti árangurinn frá því í fyrra tryggði þeim farseðil á Scania Cup eins og kemur fram í eldri pistli hérna.  Þeir duttu reyndar snemma út úr bikarkeppninni en náðu að tryggja sér í topp 4 í síðastu tourneringunni á sjálfu Íslandsmótinu og þar með miða í undanúrslitin.  Þar mættu þeir liði Fjölnis í Seljaskólanum og náðu að landa ágætlega öruggum sigri, 62:56 og þar með var ljóst að þeir væru að fara í sjálfan úrslitaleikinn.  Úrslit yngri flokkanna var haldin núna um helgina í Stykkishólmi og mætti ÍR þar Keflavík, annað árið í röð.  Breiðholtsbúarnir voru í talsverðu basli í fyrri hálfleik og voru 10 stigum undir í hálfleik, 25:35.  En með flottum þriðja leikhluta náðu þeir að jafna og fyrir síðasta leikhlutann var jafnt, 46:46 en í loka leikhlutanum keyrðu þeir yfir Suðurnesjamenn og sigruðu 76:63.  Íslandsmeistarar annað árið í röð og 3 af 4 stóru titlunum í húsi síðustu tvö tímabil.

Rosalega gaman og hreinlega mikil forréttindi að fá að fylgjast með þessum strákum, rosalega flottur hópur með hrikalega sterka einstaklinga.  Ísak Máni alla jafna ekki að skila miklum stigatölum en sterkur partur í því púsluspili sem þetta lið er.  Ég vona að þessi skemmtun verði eitthvað áfram.


Ísak Máni og Hebbi þjálfari
Bikarinn á loft
Tölfræði leiksins


Engin ummæli: