föstudagur, apríl 10, 2015

Scania Cup 2015

Páskunum þetta árið eyddi ég í Svíþjóð, nánar tiltekið í Södertalje sem er rétt utan við Stokkhólm.  Forsaga málsins er sú að Ísaki Mána og félögum í 10. flokki ÍR í körfu var boðið að taka þátt í Scania Cup.  Þetta mót er óopinbert Norðurlandamót og hefur verið haldið síðan 1981.  Þetta virkar þannig að menn sækja ekki um að fá að keppa heldur er einhver nefnd á vegum þessa móts sem einfaldlega býður þeim liðum sem þeir telja eigi heima á þessu móti og Ísland á eitt sæti í hverjum af þessum eldri aldursflokkum.  Því eitt að komast inn á þetta mót er heilmikill sigur.  Það voru þrjú lið frá Íslandi þetta árið, ÍR (1999), KR (2000) og Stjarnan (2001), allt strákalið.  ÍR hópurinn samanstóð af 10 leikmönnum en með þjálfarateyminu, foreldrum og systkinum var þetta tæplega 30 manns.  Við létum það nægja að ég færi út, sáum ekki alveg stemminguna hjá yngri drengjunum yfir því að eyða páskunum í sænskum íþróttahúsum.  Stór hluti fylgdarliðsins leigði sér hús til að gista í sem var í um hálftíma akstri frá höllinni sem spilað var í en ég kom mér fyrir á litlu gistiheimili í 10 mínútna göngufæri frá umræddri höll.  Þjálfarateymi liðsins var Herbert Arnarson sem var m.a. valinn Scania kóngur 1985 og 1986 og Sveinbjörn Claessen, sem var einmitt hluti af því ÍR liði sem komst síðast á þetta mót, fyrir einhverjum 13 árum.


Flogið var út á fimmtudeginum sem var notaður í að koma sér á staðinn.  Um kvöldið var farið á leik í úrslitakeppninni í sænska körfuboltanum, heimamenn í SBBK Södertalje á móti Íslendingaliðinu Sundsvall Dragons en þar léku 4 Íslendingar.  Sá leikur varð nú aldrei sú skemmtun sem menn höfðu vonast eftir því heimamenn unnu öruggan sigur.  Á föstudeginum hófst svo sjálft Scania Cup og ÍR átti tvo leiki fyrsta daginn.  Ég hef farið á þónokkur fótboltamót og körfuboltatourneringar en ég fullyrði að aldrei hef ég lent í öðru eins og því sem var framundan.  Tveir leikmenn liðsins lágu í koju fyrsta daginn með flensu og fleiri áttu eftir að fylgja í kjölfarið og svo meiddist einn leikmaður í fyrsta leiknum og annar í leik númer tvö.  Í þriðja leiknum voru því aðeins 6 leikhæfir leikmenn.  Þetta varð svolítið saga mótsins, það var ýmist verið að tjasla mönnum saman eða verið að reyna að kreista einhverjar mínútur úr þeim sem voru að berjast við flensu.  Held að það hafi verið 4 leikmenn sem sluppu að öllu leyti við meiðsli og veikindi, Ísak Máni var í þeim hópi.


Af úrslitum á mótinu þá töpuðust leikir gegn heimamönnum í SBBK og dönsku liðunum BK Amager og Viby Basket.  Sigur hafðist gegn KFUM Uppsala frá Svíþjóð en leikurinn um 9. sætið gegn Ullern Basket frá Noregi tapaðist í lokin.  Niðurstaðan var því 10. sæti af 12 liðum.



Ég held að hið fornkveðna, það sem drepur þig ekki styrkir þig, eigi vel við í þessu tilfelli.  Þetta var þrælerfitt fyrir þessa gutta á löngum köflum, ekki nóg með að vera að spila við bestu liðin í Norðurlöndunum þá var erfitt að vera aldrei með fullskipaðan hóp.  En ég held að menn hafi komið heilir úr þessu með feita innlögn í reynslubankann, reynsla sem vonandi kemur til góða í framtíðinni.



Ísak Máni átti mjög flott mót, þriðji stigahæsti maður liðsins en fékk meira hrós fyrir baráttu og djöfulgang og þurfti gjarnan að spila sem "stór" þrátt fyrir að eiga kannski ekki alveg sentimetrana inni fyrir því en þrátt fyrir allt vinnast körfuboltaleikir ekki bara á sentimetrum.  Það er líklega eitt af því góða við þennan leik, að þú getur farið helv... langt á hjartanu.



Maður var hálflúinn þegar við skriðum heim á þriðjudeginum eftir páska, það verður að segjast.  Ég var orðinn hálfslappur þarna síðustu tvo dagana og þá kom því ekkert rosalega á óvart að líkaminn hafi sagt stopp og groundað kallinn heima það sem eftir lifði vikunnar.  En alveg var þetta þess virði, gaman að fá að sjá þetta og upplifa.

Engin ummæli: