Annað árið í röð eyddi ég páskunum í Svíþjóð. Annað árið í röð var Ísaki Mána og félögum boðið að taka þátt í hinu óopinbera Norðurlandamóti yngri flokka í körfubolta, Scania Cup. Ferðin í fyrra var talsvert ævintýri sem einkenndist m.a. talsverðum meiðslum og svo aðallega veikindum með ÍR-inganna, nánar má lesa um það -HÉR-. Talsvert breytt plan þetta árið, ákveðið var að taka hótelgistingu með liðið og þeir foreldrar sem fóru með voru á sama hótelinu. Nýr þjálfari frá því í fyrra, Herbert Arnarson var hættur með þá en Borche Ilievski, sem þjálfaði m.a. líka meistaraflokkinn var með þá núna en Sveinbjörn Claessen kom aftur með sem aðstoðarþjálfari. Þessi ferð varð að hálfgerðri gulrót fyrir Ísak Mána, stefnan var sett á það að hann væri orðið leikfær fyrir þessa ferð þótt ljóst yrði að hann væri ekki kominn í 100% leikæfingu. Sem varð raunin, hann var byrjaður að æfa á fullu og búinn að taka þátt í 3-4 leikjum á Íslandsmótinu fyrir þessa ferð. Ég ákvað að taka Loga Snæ með mér og leyfa honum að sjá þetta, ásamt því að hann langaði mikið til að fara og versla sér föt og körfuboltaskó. Sigga ákvað að taka páskana bara heima með Daða Steini.
Flogið var út á fimmtudagsmorgni til Stokkhólms. Þaðan var tekin rúta til Södertälje og menn tékkuðu sig inn á hótelið. Liðið átti einn leik á föstudeginum þannig að það var ákveðið að skella sér aftur inn í Stokkhólm í smá verslunarferð. Þar náðu einhverjir að græja fyrir sig körfuboltaskó ásamt því að menn náðu að kíkja í Footlocker, H&M o.s.frv. Maður gat nú ekki annað en brosað út í annað, ég held að það hefði ekki verið meira "vesen" ef við hefðum verið að ferðast með kvennalið, menn voru varla lentir fyrr en talið barst að skó- og fatakaupum. Menn voru hálflúnir þegar skriðið var inn á hótel um kvöldið.
Alvaran byrjaði á föstudeginum. Einn leikur, á móti sænska liðinu Östersund Basket. 1999 árgangurinn var frekar fámennur liðalega séð en bara 7 lið tóku þátt þetta árið sem spilað var í tveimur riðlum en ÍR var í fjögra liða riðlinum. Þessi fyrsti leikur tapaðist með 5 stigum sem voru talsverð vonbrigði. Smá dejavú í gangi þegar Haraldur Bjarni meiddist í fyrri hálfleiknum, alveg eins og árinu áður en þá spilaði hann ekkert meira það árið. Þetta leit ekki vel út fyrir hann núna en fór betur en á horfðist, hann hvíldi tvö leikina á föstudeginum og kom inn eftir það í mótið. Á laugardeginum átti ÍR tvo leiki og tókst að vinna þá báða, fyrst finnskt lið sem var slakasta liðið í þessum árgangi og svo vannst sigur á danska liðinu Vaerlöse. Þessi úrslit, ásamt öðrum í riðlinum skiluðu ÍR í efsta sæti í riðlinum og þ.a.l. beina leið í undanúrslit á mótinu.
Undanúrslitin voru spiluð á sunnudeginum og þar spilaði ÍR við danska liðið EVN Basket. Það reyndist erfiður leikur fyrir ÍR, sem voru alltaf að elta í leiknum og töpuðu á endanum 63:77. Þetta danska lið fór því í úrslitaleikinn og vann hann með flautukörfu. En ÍR var því komið í bronsleikinn og spiluðu við norska liðið Ullern 56´ers sem þeir töpuðu einmitt fyrir í leik um 9. sæti á þessu sama móti í fyrra. ÍR voru talsvert beittari og unnu 10 stiga sigur og tryggðu sér því bronsmedalíuna.
Ísak Máni spilaði ekki mikið á þessu móti en fékk þótt alltaf einhverjar mínútur. Hann náði að setja einn þrist en lét það duga, var svo í allskonar hlutverkum og spilaði m.a. sem miðherji í einum leik. Auðvitað vildi hann spila meira en í ljósi aðstæðna, að koma til baka eftir erfið meiðsli, þá var hann sáttur með ferðina enda ekki annað hægt. Enda er svona ferð miklu meira en bara körfuboltaleikirnir.
Logi Snær var líka sáttur. Stundum svolítið hangs en hann fékk nýja körfuboltaskó, við fórum nokkrum sinnum í H&M búðina sem var þarna rétt hjá hótelinu og hann gat verslað sér einhver föt o.s.frv., nokkuð sem honum finnst ekki leiðinlegt. Hann var líka meira og minna á bekknum í leikjunum undir verndarvæng Svenna Claessen sem honum fannst heldur ekki leiðinlegt. Svo komst hann upp á lagið með að borða Big Mac á McDonalds, nokkuð sem ég hélt að það myndi aldrei gerast. Svo dunduðum við okkur bara talsvert, við tveir náðum að fara á úrslitaleikinn hjá 2004 árgangnum sem var yngstu liðin en reyndar var ekkert íslenskt lið að taka þátt í þeim árgangi, Stjarnan var með 2003 og 2001 og KR og Þór Akureyri með lið í 2000 árgangnum. Logi hélt fyrirfram að þessi 2004 lið væru sterkari og hann var harður á því að hann ætti alveg erindi í þetta. Það verður að koma í ljós hvort það gerist í framtíðinni en það er víst ekki nóg að hann sjálfur sé nógu góður heldur þarf hann að vera í besta eða mögulega næstbesta liðinu á Íslandi í sínum árgangi, getuminni lið frá Íslandi fá ekki boð.
Heilt yfir flott ferð og gaman að þessu. Veit ekki hvað gerist á næsta ári ef ÍR siglir Íslandsmeistaratitlinum í hús núna í vor og fær boð um þátttöku á næsta Scania Cup mót. Kemur í ljós.
þriðjudagur, maí 03, 2016
Gerast áskrifandi að:
Birta ummæli (Atom)
Engin ummæli:
Skrifa ummæli