þriðjudagur, júní 07, 2016

Ísland - Liechtenstein 4:0

Uppgangur íslenska karlalandsliðsins í knattspyrnu hefur verið ótrúlegur undanfarin ár.  Töpuðum í umspili við Króatíu um sæti á HM í Brasilíu 2014 og náðu svo á tryggja sig inn á stórmót í fyrsta sinn núna á EM í Frakklandi 2016, þrátt fyrir að vera m.a. í riðli með Tékklandi, Tyrklandi og Hollandi. 

Þegar vel gengur þá fylgir stemmingin með og þá vilja allir vera með.  Og í þessu tilfelli þýddi það að ná sér í miða á heimaleiki með liðinu í undankeppninni, á 10.000 manna Laugardalsvöll, var enginn hægðarleikur.  Ég reyndi aðeins en þúsundir manna virtust bíða spenntir fyrir framan tölvurnar þegar opnað var á miðasölu og gildi þá einu hvort það var verið að spila við Holland eða Kasakstan, alltaf fékk maður bara computer-says-no.  Staðan var einfaldlega sú að t.d. hafði Daði Steinn aldrei, þegar hér var komið við sögu og orðinn 7 ára, farið á landsleik í fótbolta. 


Það var því stokkið til þegar KSÍ henti í einn æfingaleik á heimavelli, síðasti leikur fyrir EM, á móti Liechtenstein.  20.000 kall var slengt fram fyrir 5 miða fyrir alla fjölskylduna á besta stað í stúkunni til að sjá landsliðið í æfingaleik þar sem fyrirfram var vitað að ekki nokkur heilvita leikmaður myndi fórna sér í svo mikið sem eina tæklingu og að andstæðingurinn gat ekki blautan.

En veðrið var yndislegt, 4 mörk voru skoruð, Eiður Smári skoraði í mögulega sínum síðast landsleik á heimavelli og allir leikmenn komu heilir úr þessu.  Nú mátti EM fara að byrja.

Engin ummæli: