Daði og Gabríel þakka fyrir leikinn |
En við fórum uppeftir á föstudeginum eins og venjan hefur
verið. ÍR gisti þetta árið í
Brekkubæjarskóla sem er nokkur spölur frá keppnisvöllunum en það bjargaðist nú
allt saman. Mótið hófst á skrúðgöngu og
setningarathöfn í yfirbyggðu knattspyrnuhöll þeirra Skagamanna. Daði Steinn var í A-liði og þeim gekk nokkuð
vel á föstudeginum, sigruðu Fram og gerðu svo jafntefli við bæði ÍA og
Þrótt. 2. sæti í riðlinum sínum þann
daginn og því ljóst að menn fengju sterka andstæðinga á laugardegi og
sunnudegi. Sem varð raunin, mættu m.a.
Breiðablik-1, Stjarnan-1 og FH-1, og töpin urðu í meiriflokki. Laugardagurinn endaði þó á sigri á Selfossi
þar sem Daði Steinn mætti gamla félaga sínum úr ÍR, Gabríel Úlfi, sem flutti á
Selfoss fyrir síðasta vetur. Mótið
endaði svo á sunnudeginum með tveimur tapleikjum.
Fyrirliðinn fagnar |
En heilt yfir var þetta gaman, Daði Steinn svaf með liðinu
sínu báðar næturnar en við keyrðum á milli.
Logi Snær var á körfuboltabúðum á Spáni en Ísak Máni kom með okkur upp á
Skaga á laugardeginum og fylgdist með þessu þann daginn. Veðrið var þokkalegt, aðeins smávæta á
föstudeginum þegar við vorum að spila en hellirigndi á þá sem voru síðar um
daginn sem gerði það að verkum að vellirnir voru vel blautir á laugardeginum
þótt það rigndi ekkert þá. Skall svo á
með sól og blíðu á sunnudeginum.
Á föstudeginum lentu þeir svo í viðtali hjá Gaupa,
íþróttafréttamanni sem hefur verið að stýra hinum árlegum þáttum um þessi
fótboltasumarmót. Held að þetta hafi
verið tíunda árið sem hann kom upp á Skaga.
Daði gekk reyndar ekki alveg heill til skógar, tókst að
dúndra ristinni á sér í stöngina á trampólíninu þarna fyrir helgina og var
hreinlega á köflum á öðrum fætinum en bar sig vel og vildi ekki almennt
viðurkenna að það væri nokkuð að honum.
En maður sá það í leikjum að hann gat ekki beitt sér að fullu, honum
tókst ekki að skora þetta árið.
En Skagamótskaflanum er s.s. lokið hjá mér, ég kveð það sáttur.
Engin ummæli:
Skrifa ummæli