sunnudagur, júlí 30, 2017

Í fríi á Akureyri - 5 réttir í veðurlottóinu

Við skelltum okkur norður á Akureyri í tæpa viku seinnipart júlímánuðar.  Fengum, fyrir talsverða tilviljun, kennarafélagsíbúð sem datt inn í úthlutun núna í vor.  Alltaf algjör lottó með veður í svona fyrirframákveðnum innanlandsferðalögum, minnist vikunnar í VR bústaðnum í Miðhúsaskógi fyrir þremur árum þar sem rigndi aðallega og fríið bar þess óneitanlega merki.  Þannig að maður var alveg með það í kollinum að við gætum verið að fara norður í einhverja norðanátt, 5 gráður og þoku.  Og fyrsta langtímaspáin var ekki að vinna með okkur.  En það rættist aldeilis úr þessu, fengum algjört bongóblíðuveður þessa daga sem við vorum á svæðinu.

Lögðum af stað á miðvikudagsmorgni, því miður Ísaks Mána-laus, þar sem hann þurfti að vinna.  Stoppuðum á Blönduósi og fórum í sund, skothelt dæmi.  Ókum svo inn til Akureyrar í skýjað en 20 stiga hita.  Vorum þarna fram á mánudag.  Höfðum ráðgert að taka mögulega rúnt til Húsavíkur, jafnvel skoða Dettifoss o.s.frv. en veðurblíðan var svo yfirgengilega góð að það endaði svoleiðis að við vorum nánast bara á Akureyri og næsta nágrenni.  Tókum reyndar part úr degi einn bíltúr út á Dalvík og Ólafsfjörð, slepptum Siglufirði í þetta skiptið.  Annars var þetta bara hefðbundið chill, endurbætta sundlaugin á Akureyri var í göngufæri frá íbúðinni okkar og svo dunduðum við okkur almennt.  Jólahúsið, Lystigarðurinn og Flugvélasafnið var meðal þeirra hluta sem voru teknir ásamt því að miðbærinn og skólalóðir voru stundaðar.  Inga, Gunni og Hekla mættu svo á svæðið, eftir ferðalag m.a. á Egilsstaði, og voru þau líka með hús fyrir norðan.  Tókum m.a. kvöldstund þar þar sem horft var á leik Íslands og Sviss á EM kvenna og grillað.

Þurftum svo að skila af okkur húsinu á mánudeginum þannig að það var bara tekin svipuð formúla og áður, stoppað í sundi á Blönduósi, borðað á Staðaskála og svo bara heim.  Engin geimvísindi á bak við þessa ferð en ofsalega var þetta ljúft.

Jólahúsið

Á flugvélasafninu

Eitthvað var farið í körfubolta

Á byggðarsafninu á Dalvík

Í lystigarðinum á Akureyri

Engin ummæli: