föstudagur, júlí 14, 2017

Þriðji körfuknattleiksferillinn í fæðingu?

Í morgun minnti Facebook mig á þá staðreynd að á þessum degi fyrir tveimur árum fór Daði Steinn á sína fyrstu fótboltaæfingu hjá ÍR.  Hann hefur verið á fullu í fótboltanum síðan og það er vel.  Við vorum svo líka að reyna að fá hann til að fara á körfuboltaæfingar síðastliðinn vetur, en hjá ÍR þurfa krakkar í 1. og 2. bekk ekki að borga mörg æfingargjöld heldur er bara eitt gjald og þau mega þá mæta á æfingar hjá öllum deildum félagsins.  En hann var ekkert ginkeyptur fyrir það, mætti bara á sínar fótboltaæfingar en stundaði svo körfubolta hérna heima í stofu með eldri bræðrum sínum.


En núna í sumar datt inn viku námskeið hjá Brynjari Karli, þjálfara sem er að hefja störf hjá ÍR næsta vetur, og var þetta námskeið fyrir stráka fædda 2009 og 2010.  Námskeiðið var ókeypis og okkur fannst tilrauninnar virði að tékka á stemmingunni hjá drengnum.  Hann var ekki alveg viss, en samt nokkuð spenntur.  Niðurstaðan varð sú að félagi hans, hann Bæring, ætlaði að fara með honum og sömuleiðis var samið um að ef Daði færi fyrsta daginn og líkaði það vel að hann myndi klára námskeiðið þá yrði farið og verslað handa honum körfuboltaskó sem hann rakst á um daginn á útsölu í Smáralindinni.  Bláir og hvítir Nike KD9, nákvæmlega eins skór og Logi Snær er að m.a. að spila í um þessar mundir.  Fyrsti dagurinn gekk svona glimrandi vel, Daða fannst þetta frábært og farið var og splæst í nýju skóna eftir fyrsta daginn og kláraði hann námskeiðið í nýju skónum.  Félagi Bæring sást reyndar ekkert eftir fyrsta daginn og það breytti engu fyrir minn mann, þetta var nefnilega svo gaman.

Þetta námskeið var að klárast núna í dag, á tveggja ára fótboltaæfingaafmælinu hans, og aðspurður um hvort hann ætli að kíkja á körfuboltaæfingar næsta haust var svarið einfalt og skýrt:  Já.

Sjáum til hvað gerist.  En skórnir eru a.m.k. klárir.

Engin ummæli: