miðvikudagur, nóvember 23, 2005

Fæðing snjóbrettaferils?

Nú líður senn að jólum og Ísak Máni datt í óskalistagírinn um daginn. Það var svona þetta týpíska: "Þetta dót og hitt dót, fótboltabúningar, DVD o.s.frv. Eitt sem kom svolítið við mig þegar hann var að láta mig skrifa þennan lista fyrir sig ... snjóbretti! Þá vissi ég að nú væri ég nánast kominn út í horn, nú þurfti ég að fara horfast í augu við það sem ég vissi að væri yfirvonandi. Þessi saga á sér forsögu og forsagan á sér forsögu.

Forforsagan er þannig að eina skiptið á ævinni sem ég hef farið á skíði, Bláfjöll þann 31. mars 1988. Fékk lánuð skíðin hjá systir hans Danna Mausara og fór tvær ferðir niður "brekkuna". Þetta var reyndar einhver útidúrsbrekka þarna og hallinn þarna þótti víst ekki merkilegur fyrir hinn almenna skíðamann, en þegar maður er bara 13 ára kjúklingur sem kann ekki að stoppa sig eftir að á ferðina er komið þá var þetta bara talsvert. Fór tvær bunur, sú fyrri endaði í byltu og sú síðari sömuleiðis en með meiri brothljóðum þó, á vinstri fótlegg. Til að gera langa forforsögu stutta þá kostaði þetta karlinn einhverjar 6 vikur í gifsi og fyrirheit um að skíðaferlinum væri lokið, jafnsnögglega og hann byrjaði.

Forsagan er svo sú að þegar ég var að vinna hjá GÁP fyrir einhverjum árum þá var keypti eigandinn Týnda hlekkinn sem þá hét og var á Laugarveginum. Týndi hlekkurinn var aðallega verslun með hjóla- og snjóbretti og þótti nokkuð öflug sem slík. Nóg um það, eitthvað af vörunum frá Hlekknum tókum við yfir í GÁP svona til að hafa upp á þær að bjóða. Þarna var maður farinn að handfjatla snjóbretti, bindingar, brettaskó og brettaföt og á tiltölulega stuttum tíma var ég farinn að sjá þetta í hillingum, mig sjálfan brunandi niður snævi þaktar brekkur, vindinn leikandi um andlitið og ferskt fjallaloftið fyllandi lungun. Það hafði líka sitt að segja að aðaldrengurinn hjá Hlekknum, svaka fínn gaur sem heitir Jói að mig minnir, var stöðugt að æsa mann upp í þetta. Það fór svo á endanum að ég ég skutlaðist til hans í búðina á Laugarveginum einn laugardagsmorgun og hann fann fyrir mig bretti, bindingar og skó, stillti þetta og græjaði allt fyrir mig. Ég fékk þetta fyrir tiltölulega lítinn pening og var bara helvíti sáttur við þetta allt. Svo kom hins vegar að því að finna tækifærið að prófa þessar græjur..humm... Málið var auðvitað það að ég þekkti engan forfallinn brettara og því dó þetta æði fljótlega, ég hætti hjá GÁP og brettið fór alltaf innar og innar í geymslunni, alveg ónotað. Brettahugleiðingarnar grófu sig aftur út úr undirmeðvitundinni þegar Ísak Máni var lítill undir þeim formerkjum að það væri nú gaman að vera fær um að standa nokkra metra á bretti þegar hann færi að komast á brettaaldurinn.

Hjá þessu verður sem sagt ekki komist mikið lengur. Ég var eitthvað að lýsa þessu fyrir Siggu um daginn og þessi elska var nú ekki lengi að finna lausn á þessu vandamáli. Ég ætti bara að fara í stóru brekkuna sem er hérna í hverfinu, við hliðina á skólanum og æfa mig. Nú veit ég ekki hver almenn afstaða við þessari hugmynd er en hvað mig varðar: NO FU#%ING WAY! Að ég ætli að fara í hverfisbrekkuna og hækka meðalaldurinn umtalsvert og lækka getustigið sömuleiðis... næsta hugmynd takk. En það er ljós þarna úti. Ég var nefnilega búinn að stefna að því að láta Ingu systir hennar Siggu kenna mér brettatökin því hún er eitthvað búin að vera fikta við þetta en þá tókst henni að fá þá flugu í höfuðið að það væri kannski sniðugt að búa í Danmörku í einhvern tíma og því hefur sú framkvæmd verið á bið. Hins vegar hefur heyrst að hún ætli að koma heim í janúar og vera í nokkrar vikur. Gefur okkur það að sveinki gefi stráknum bretti, Inga komi til landsins og brettið hennar sé í seilingarfjarlægð, spurning hvort þetta sé allt að smella saman? Það skildi þó aldrei vera að karlinn sé að fara að stunda vetraríþróttir eftir áramót? Maður þyrfti þó að drösla öllu liðinu upp í bíl og eitthvert upp í sveit til æfingar, allt til að losna við hverfisbrekkuna...

4 ummæli:

Nafnlaus sagði...

Ertu orðinn alveg snar geðveikur drengur. Ertu búinn að gleyma þessari einu ferð þinni svo glatt???. Gefðu honum bara Stiga sleða í jólagjöf

Nafnlaus sagði...

Davíð þú ert ekki í lagi. Þú ert of gamall og of stirður fyrir svona hundakúnstir. Þetta sennilega endar bara með ósköpum. Gefðu barninum bara stiga sleða eins Tommi segir.....
Kveðja úr frostinu fyrir vestan

Nafnlaus sagði...

Skelltu þér bara á hverfishólinn, svo spyr ég krakkan í bekknum bara hvernig þú hafir staðið þig............

Nafnlaus sagði...

Mikið er ég sammála Siggu, þú getur kannski bara farið í brekkuna í seljahverfi og látið Jökul sína þér hvernig á að gera þetta, en ég ætla að skella mér í frönsku alpana að æfa mig :-) þannig að ég verði nú hæf til að kenna þér eitthvað