sunnudagur, nóvember 20, 2005

Lasinn

Það er ýmislegt sem fer í taugarnar á mér en það er eitt sem mér finnst sérstaklega ömurlegt. Það er að vera veikur. Að vera veikur er gjörsamlega óþolandi fyrirbæri. Ég er búinn að vera með einhvern skít í mér í ca. 10 daga, þessa hefðbundnu haustflensu sem leggst yfir landann um þetta leyti. Það var svo núna á föstudaginn að ég versnaði til muna, lumpaðist samt í vinnuna en var að drepast í hálsinum. Kom svo heim og lagðist upp í sófa og síðan í framhaldi upp í rúm. Hálsinn var svo bólginn að þegar ég tók verkjartöflur þá hélt ég að þær myndu ekki komast niður. En ef ég hélt að þetta yrði ekki verra þá voru það falsvonir. Ég svaf ömurlega um nóttina og þegar ég fór fram úr um morguninn þá hélt ég að þetta væri mitt síðasta. Ég gat bara ekki talað, svona grínlaust, og það að kyngja munnvatni var meiriháttar átak. Tók þá ákvörðun að fara til læknis og sjá hvað kæmi út úr því. Fór á læknavaktina í Smáratorgi og var kominn rétt áður en stofan opnaði, ásamt nokkrum foreldrum sem voru að koma með sín fyrstu börn sem virtust ekki vera vitund lasinn þegar þau hlupu þarna um allt öskrandi og gargandi fyrir utan einn og einn hósta sem þau stundu upp. Konan í afgreiðslunni átti í erfiðleikum með að skilja mig þegar ég reyndi að rymja út úr mér kennitölunni og varð svo eins og asni þegar hún ýtti á vitlausan takka á lyklaborðinu og ég þurfti að kreista kennitölunni aftur út um bólginn barkann. Doktornum fannst réttast að setja mig á pensilín og gat þess að ég gæti botið pillurnar niður til að eiga auðveldara með að koma þeim niður. Þannig að laugardagurinn fór í sófalegu með Gatorade í annarri og fjarstýringuna í hinni. Muldi svo í mig eina og hálfa pítu í kvöldmatnum sem er sögulegt lágmark. Fannst eitthvað svo hljótt við kvöldverðarborðið og lét þess getið að sökum þessara verkja í hálsinum þá ætti ég í erfiðleikum með að tala. Mér sýndist örla við glotti þega Sigga leit þá á mig og sagði: “Þú verður þá bara að þegja...”

3 ummæli:

Nafnlaus sagði...

Það eina sem virkar er að láta taka úr sér kirtlana. Það er vont, það er hræðilegt, það er ömurlegt. En hey þá sleppuru við allar svona hálsbóglur og sparar þér peninginn við penisilin kaup. Ferð bara til HNE og málið er dautt

Nafnlaus sagði...

Taka úr sér kirtlana??? Ertu alveg ga ga manneskja.. á svo bara að taka af sér fótinn ef maður er haltur??? Eða rífa af sér eyrun við eyrnabólgu?? Ég hef bara aldrei heyrt annað eins hrmpf

Nafnlaus sagði...

Bara taka fótinn við öxl...... hahahahaahha eina sem virkar