þriðjudagur, mars 27, 2007

Af atburðum helgarinnar

Helgin leið alveg rosalega hratt, kannski af því að það var nánast stanslaust prógramm í gangi. Byrjuðum á föstudagskvöldinu í mat hjá Haraldi og Kristínu, eins og ég minntist aðeins á í síðasta pistli. Laugardagurinn var svo undirlagður þeirri staðreynd að við hjónaleysin vorum að fara á árshátið hjá Nathan síðar um kvöldið. Kallinn þurfti að byrja daginn niðri í vinnu við undirbúning vegna happdrættisins sem var veglegt að vanda. Drengirnir fengu gistingu upp í Mosó og ég held að allir hafi verið sáttir við það. Árshátíðin var hin ágætasta, fínn matur, fín skemmtiatriði en reyndar engin happdrættisvinningur sem endaði hjá okkur þetta árið. Kallinn fékk svo þess snilldarhugmynd á leiðinni heim að stopp á Nonnabita og fá sér einn bita. Þetta gerist ekki nema á nokkra ára fresti núorðið að undirritaður rati þarna inn en djö... var hann góður. Konunni þótti hann reyndar betri í minningunni en ætlar að fá sér nautabát í staðinn fyrir lambabát þegar við förum næst... 2010.

Drengjaleysið var nýtt á sunnudeginum í að rústa stofunni. Við höfðum keypt nýja sjónvarpsskáp um daginn sem hafði verið síðan þá óuppsettur inn í stofu. Hann var sem sagt settur saman, hillusamstæðan færð og snjáði hornsófinn var bútaður niður og er nú einfaldlega 3ja sæta sófi. Kostaði tvær ferðir á Sorpu, með eitt stykki gamlan sjónvarpskáp og cirka hálfan hornsófa. Við erum voða ánægð með þetta og erum aðeins farin að svipast um eftir nýjum húsgögnum í stofuna, svona til að bæta þetta enn betur.

Ekki tók við afslöppun eftir það því þá þurfti að sækja drengina upp í Mosó og koma sér niður í Austurberg þar sem ÍR átti að spila við Fylkir í meistaraflokki karla í handbolta. Búið var að blása til hátíðar þarna og var verið að gefa boli, töskur og handbolta ásamt nammi og ég veit ekki hvað. Þar hafði líka verið skipulögð smá uppákoma fyrir 8. flokkinn í handboltanum en þeir máttu koma og hlaupa með meistaraflokknum inná völlinn í byrjun leiks í búningum og alles. Þetta gekk allt saman og Ísak Máni var mjög sáttur með þetta allt. Honum fannst æðislegt að fá að prófa alvöru handbolta með klístri eða svokölluðu harpixi. Ég tek ofan af fyrir hverfisklúbbnum, ánægður með svona framtak sem gerir ekkert nema að vekja meiri áhuga ungviðsins á þessu starfi. Við þurftum að fara í hálfleik því kallinn þurfti að fara að spila æfingarleik með Vatnsberunum. Var svo sem alveg í lagi því Logi Snær var orðinn þreyttur á að hlaupa eftir pöllunum þverum og endilöngum og Ísak Máni var orðinn hálflúinn líka.

Það vottaði því fyrir smá þreytu eftir þetta allt saman þegar maður settist í "nýja" sófann sinn á sunnudagskvöldið.1 ummæli:

Nafnlaus sagði...

Bíddu og er svo engin mynd af nýrri stofu hvörslags er þetta eigilega........