þriðjudagur, ágúst 07, 2007

Samverustund feðganna

Rosalega er ég slakur í tölvuleikjum. Reyndar tel ég mig vera nokkuð öflugan í Tetris en það telst varla með. Þessi staðreynd um vanhæfi mína í þessum málum er eitthvað sem ég vissi svo sem en fékk enn eina staðfestinguna á þessu núna um daginn. Ísak Máni spilar helst fótboltaleikinn FIFA07 í Playstation2 og platar mig stundum til að fara í leik. Ég tapa nánast alltaf, skíttapa. Nú er svo komið að til að jafna leikinn þá þarf ég að velja topplið en hann velur eitthvað lélegt. T.a.m. þá vann ég hann um daginn með naumindum í æsispennandi leik 5:4, ég var Barcelona en hann hið geysiskemmtilega lið Accrington Stanley sem spilar í D-deildinni í Englandi, segir allt sem segja þarf.

Svo náði þetta algjörum botni þegar við tókum annan leik daginn eftir og eitthvað byrjaði ég illa, missti mann útaf, lenti undir og fór að verða pirraður. Þegar ég verð pirraður þá renna allir takkarnir í eitt, man ekki hvað x-ið gerir og man ekki hvar o-ið er og vill bara helst tækla mann og annan sem er ekki vænlegt til árangurs. Reyndi samt að halda haus, maður er jú uppalandi. Gekk illa að halda haus og sonurinn skynjaði að leikurinn var ekki að taka góða stefnu, eflaust enn í fersku minni þegar hann flengdi karlinn 4:0 og karlinn varð sár. Hann fór að verða grunsamlega kærulaus með öftustu vörnina, m.a. gaf markvörðurinn hans boltann „óvart“ beint á sóknarmenn mína og smátt og smátt náði karl faðir hans að jafna og tryggði sér að lokum sigur. Hann var grunsamlega sáttur við að tapa en sigurinn var beiskur fyrir karlinn. Enda stóðu menn upp frá tölvunni og ræddu þetta ekki frekar.

Spurning um að fara bara í SingStar eða eitthvað.

2 ummæli:

Nafnlaus sagði...

Hvor er uppalandinn í þessarri dæmisögu?:)

Nafnlaus sagði...

Góð spurning!!!! He, he, he.