föstudagur, ágúst 03, 2007

Formaðurinn í feluleik

Karlinn er búinn að vera á fullu þessa vikuna á nokkrum vígstöðum. Hef farið mikinn í hlutverki formanns húsfélagsins enda framkvæmdir á næsta leyti. Ljóst er að grafa þarf garðinn í spað og mun það hafa í för með sér óþægindi fyrir íbúa blokkarinnar á meðan því stendur, að ekki sé minnst á pallanna sem hafa risið upp við margar íbúðir jarðhæðarinnar og eru á mjög gráu svæði hvað öll leyfi og reglugerðir áhræri. Menn eru oft snöggir upp á afturlappirnar þegar farið verður að ræða um kostnað. Þetta kemur til með þýða talsvert af fundarhöldum hjá undirrituðum á næstu vikum og mánuðum.

Svo hefur maður verið í því að skoða íbúðir fyrir Namibíugengið. Hálffurðulegt að vera að skoða fjarfestingar upp á tæpar 30 millur fyrir annað fólk og skila svo skýrslum um hvern kofann á fætur öðrum. Eftir brölt um borgina þvera og endilanga þá fékk „betri“ helmingurinn hjá íbúðakaupendunum sínu framgengt og Breiðholtið er næsti viðkomustaður heimshornaflakkarana. Eins og það var furðulegt að skoða íbúðir fyrir annað fólk þá var það líka ákveðin forvitnissvölun og svo fer þetta allt í reynslubankann. Ein íbúðin sem ég kíkti á var vestur í bæ og sú reynsla styrkti grun minn í því sem ég talaði einhvern tímann um ekki alls fyrir löngu. Ég mun ALDREI geta búið í KR-hverfinu. Aldrei aftur þ.e.a.s. Hjólandi börn í KR-göllum og KR-peysur hangandi í forstofunni, þetta var of mikið fyrir mig. Í nánast yfirliði og ofandandi eins og kona með 10 í útvíkkun reyndi ég að staulast í gegnum þessa skoðun með opnum hug. Sem betur fer hentaði þessi íbúð ekki Hr. og frú Namibíu. Í alvöru.

Annars reyndi maður að vera ekkert að flagga öllum þessum söluyfirlitum sem maður hefur haft í rassvasanum síðstliðnu viku. Veit ekki hvernig það liti út að formaður húsfélagsins sem væri að boða bullandi framkvæmdir með tilheyrandi kostnaði væri svo að spóka sig í hverfinu skoðandi íbúðir. Lítur ekki nógu vel út. Gat samt ekki setið á mér og tilkynnti öðrum meðlimi í stjórninni, ofan í umræður um lögfræðiálit varðandi pallaeignir, að ég væri að skoða íbúðir. Sá meðlimur hefði líklega hjólað í mig ef þetta samtal hefði ekki átt sér stað í gegnum síma, ég var nú reyndar fljótur að leiðrétta misskilninginn.

Ógeðslega fyndinn gaur!

1 ummæli:

Nafnlaus sagði...

Takk Davíð minn fyrir að hendast um allan bæ fyrir okkur og skoða íbúðir. Við treystum þér greinilega fullkomlega þar sem íbúðarkaupin okkar eru algjörlega byggð á skýrslunni frá þér :-)

Kveðja heim.