þriðjudagur, janúar 01, 2008

Áramótin

Enn eitt nýja árið gengið í garð, hvar endar þetta eiginlega? Jæja, ætli maður viti svo sem ekki svarið við þeirri spurningu.

Logi Snær klæddi sig upp í gær fyrir áramótapartýið, beinagrindapeysa og „rokkaragreiðsla“, hvað þarf meira?



Áramótin voru sem sagt haldin í Æsufellinu hjá Villa og fjölskyldu en einnig var Jóhanna og fjölskylda á svæðinu ásamt því að kóróna það þá var mamma líka á svæðinu. Kalkúnn í boðinu ásamt því að ný hefð var sett á laggirnar, nefnilega að hafa saltkjöt og baunir á kantinum. Frönsk súkkulaðikaka a-la-Sigga á eftir og innanmál magans stefndi í óefni.

Skaupið ágætt og flugeldar framundan. Útsýnið var vægast sagt magnað og ég var búinn að ákveða að vera ekki með nefið ofan í einhverjum fjölskyldupakkanum þetta árið. Það hafði reyndar kostað talsverðar samningsumræður við eldri soninn sem gengu í gegn á endanum þrátt fyrir að soninum hafi fundist að hann hafi ekki komið vel út úr þeim samningum. Hann fékk reyndar að fara aðeins út með Ella og Daníel Viðari að sprengja en svo var stjörnuljósið og blysið bara tekið af svölunum á Æsufellinu. Ég verð að vera eftirgefanlegri á næsta ári, minnispunktur handa mér að ári: Kaupa einhvern fjölskyldupakka og láta Ísak Mána vera búinn að sprengja megninu af smádraslinu talsvert fyrir miðnætti þannig að hægt sé að dunda sér við stóru sprengjurnar milli þess að maður horfi á annnarra manna sprengjur.

Fjölskyldan var að skríða heim klukkan að verða 2 en aldursforseti hennar rankaði við sér á slaginu 12:00 á nýársdag en aðrir voru þá búnir að vera talsverðan tíma á fótum. Dagurinn, eða það sem var eftir af honum, fór svo bara í eitthvað chill, fínt að hafa umferð í enska boltanum á svona dögum. Fórum reyndar á brennu hérna í hverfinu í kvöld, brennu sem hafði verið frestað frá því í gær vegna veðurs. Róleg stemming þar en allt í lagi fyrir undirritaðan að komast aðeins út í ferska loftið.

Fiskibollur voru í kvöldmatinn og vinnudagur á morgun. Við bjóðum aftur til leiks gamla gráa hversdagsleikann.

Engin ummæli: