Núna er árstími rollurassa hjá konunni þannig að hin heilaga karlpeningaþrenning fjölskyldunnar sá um að gæta heimilisins þessa helgina. Logi Snær var þokkalegur í morgun en fór fljótlega að dala þegar nær dró hádegi. Þegar hann lá bara fyrir ákvað ég að taka vísindalega út hitastigið á honum sem kom í ljós að var ekki gott. Ástandið batnaði ekki þegar Cocoa Puffsið frá því í morgun kom aftur sömu leið og það hafði farið inn. Það var því ljóst að sjálfur formaður húsfélagsins var að fara skrópa á hinum árlega hreinsunardegi og gefa þar með skít í sótsvartan almúgann. Ísak Máni var sendur út sem fulltrúi íbúðarinnar og stóð sig eins og hetja.
Logi Snær er núna búinn að sofa síðan klukkan 17 í dag og ég bíð „spenntur“ eftir að sjá hvort hann vaknar kl. 04:30 eða eitthvað álíka, reiðubúinn að fara á fætur. Reyndar er spurning hvort maður gerir nokkuð annað en að sofa þegar líkamshitinn er kominn upp í 39,5? Nema að hitalækkandi dótið fari að kikka inn. Vonum það besta. Og ef allt færi á allra besta veg þá er kannski spurning hvort ég fari líka að ná 100% heilsu...
1 ummæli:
Æi hvað maður á bágt greyið litla... vona að hann verði fljótur að hrista þetta af sér
Skrifa ummæli