fimmtudagur, maí 08, 2008

Kominn heim, ef einhver tók eftir því að ég var ekki hérna

Tók stuttan túr til London í síðustu viku í smá vinnufélagahóp. Farið var út seinnipart miðvikudags og komið heim núna á sunnudaginn. Fyrri hlutinn var vinnuferð, eyddum fimmtudeginum og föstudeginum í heimsóknum hjá birgjum okkar, annars vegar UB og hins vegar Heinz. Helv... magnað að þeir eru staðsettir við hliðina á hvor öðrum þannig að þegar við vorum búnir hjá UB þá var einfaldlega rölt yfir götuna yfir til Heinz. Svo var tekið góður rúntur í verslanir (matvöruverslanir, ekki fataverslanir), ASDA, Tesco, Sainsbury, Lidl, Iceland og hvað þetta heitir allt saman. Skemmtilegur túr og eitthvað situr vonandi eftir á harða disknum.

Seinnipart föstudags færðum við okkur yfir á Chelsea hótelið og gistum þar í tvær nætur. Fórum út að borða á geðveikan indverskan stað, það var alveg í lagi. Rifum okkur upp snemma á laugardagsmorgninum og héldum yfir til Reading en þar var stefna sett á Madjeski stadium til að sjá Reading mæta Tottenham. Flottur völlur, alls ekki stór en flottur. Svipað dæmi og á Stamford Bridge, hótel sambyggt við sjálfan völlinn. Vorum mættir tímanlega til að sjá hádegisleikinn, Man Utd - West Ham, í sjónvarpinu. Öruggur 4:1 sigur minna manna en ég gleymdi svolítið stað og stund þarna. Þéttsetinn salur af fólki á öllum aldri þarna og annar hver maður í Reading treyju. Að búningunum undanskildum þá hefði ég alveg eins geta verið á Ölveri eða öðrum sambærilegum sportbar og þegar United komst í 1:0 hoppaði ég upp úr sætinum og gargaði: „YES“. Ég áttaði mig hins vegar á stað og stund þegar ég gerði mér grein fyrir að ég var sá eini sem sýndi þessi viðbrögð. Viðbrögð annarra við þessum viðbrögðum mínum voru þó ekki harkaleg sem heitið getur en einn samferðarmaður minn hallaði sér að mér og hvíslaði: „Ég ætla bara að minna þig á að við erum staddir í Reading.“ Brynjar Björn leikmaður Reading sem var reyndar ekki í hópnum vegna meiðsla kom á svæðið með miðana okkar en hann hefur náin tengsl við sölustjórann hjá okkur. Það vakti smá athygli en samt ekki eins mikla og ég hefði kannski haldið, nánari skýringar á því hérna á eftir. Seinna tók mig tali maður á karlaklósettinu og spurði hvort ég væri ekki United aðdáandinn sem þekkti Brynar Björn þannig að maður var orðinn heimsfrægur í Reading...

Leikurinn sjálfur var nú ekkert spes en maður skemmti sér samt mjög vel og alltaf gaman að fara á völlinn í Bretlandi. Heimamenn töpuðu 0:1 og eru í bullandi fallbaráttu fyrir síðustu umferðina um næstu helgi. Eftir leikinn röltum við aðeins þarna um svæðið og það kom nú í ljós að þetta var náttúrulega hálfgerður „sveitaklúbbur.“ Leikmennirnir gengu nú frekar óáreittir þarna um, einn og einn sem bað um eiginhaldaráritun og einstaka ljósmyndir teknar en heilt yfir var þetta frekar heimilislegt. Maður var bara ekki nógu mikið lesinn yfir þessu Reading liði til að þekkja þessa leikmenn og vorum við ósparir að spyrja næsta mann hver þessi og hinn var. Alveg eins og asnar... Fyrir áhugasama má nefna leikmenn eins og Kevin Doyle, James Harper, Stephen Hunt, Michael Duberry, Shane Long sem voru að spóka sig þarna í góðum gír með bindishnútana á hreinu. Annars lítið um að vera í Reading þannig að við komum okkur aftur til London, á Piccadilly Circus og smelltum okkur á Fridays. Á meðan við biðum eftir borði fór fram minn eini „verslunarleiðangur“ í ferðinni, náði að henda mér inn í Lillywhite´s og versla sinn hvorn Roma bolinn á drengina en því miður náði ég ekki að taka almennilegan rúnt þarna. Ég elska nefnilega svona risaíþróttabúðir! Rifin á Fridays voru alveg í lagi.

Hádegisvélin heim á sunnudeginum, fínt að koma heim svona um miðjan dag frekar en að vera í einhverju tómu rugli fram eftir nóttu. Sigga og Ísak Máni komu að sækja mig en Logi Snær var hjá ömmu sinni í Mosó. Á leiðinni heim enduðum við á ÍR vellinum en ÍR var að spila við Hvöt, úrslitaleikur í einhverjum Framrúðubikar, Lengjubikar B held ég að hann heiti. Komum beint í framlenginguna og sáum ÍR komast yfir. Leikurinn var að fjara út þegar allt varð vitlaust á vellinum, spilandi þjálfari Hvatar straujaði einn ÍR-inginn út við hornfána og fékk kröftugt stjak fyrir. Hann ákvað að svara því stjaki með velútilátandi hægrihandarkrók svo glumdi í. Orðbragðið sem fylgdi í kjölfarið verða ekki höfð eftir hérna. Allt gerðist þetta tæpum 3 metrum frá okkur og Ísak Máni fékk því sýnikennslu í því hvernig fullorðnir karlmenn hegða sér þegar illa gengur.

Íþróttir = forvarnir?

1 ummæli:

Nafnlaus sagði...

Ég vill ekki commenta á fótboltapistla...