föstudagur, mars 06, 2009

Heilsuátak

Er í heilsuátaki í vinnunni en í vinnunni er líkamsræktaraðstaða sem menn hafa verið að reyna að nota með svona la-la árangri. Þetta átak byrjaði fyrir rúmum mánuði síðan með ítarlegu mati á karlinum og svo verður tekið tjékk einu sinni í mánuði fram í maí held ég. Tjékkið fer svona fram: Fyrst er stigið á vigt og farið í allan sannleikinn um einhverja niðurstöðutölu í þeim efnum. Fitumælt og helstu mál tekin, brjóstkassi, bumba, spenntur upphandlegsvöðvi og eitthvað í þeim dúr. Síðan eru armbeygjur teknar í eina mínútu áður en endað er á 5 mínútna hjólreiðartúr. Allt skráð niður af viðurkenndum einkaþjálfara sem heldur um bókhaldið.

Ég var sem sagt í fyrsta tjékki í gær og auðvitað vonaði maður að maður hefði eitthvað náð að laga hjá sér tölurnar eftir þennan mánuð. Heilt yfir nokkuð sáttur, kominn úr einhverjum 92,3 kílóum niður í 89,3 en takmarkið var að komast niður fyrir 90 kílóa múrinn í fyrstu hrinu. Ok, ekkert gríðarlegt takmark kannski en eins og flest annað í lífinu þá er þetta langhlaup en ekki spretthlaup. Fituprósentan leit betur út, armbeygjurnar gengu betur o.s.frv. Þá var komið að hjólinu. Vitaskuld þegar hér var komið voru menn ákveðnir í að ná betri árangri þar líka. 5 mínútum síðar og rúmum 4,7 kílómetrum, sem var bæting, kom ég í „mark“ og hafði bara tekið þetta á jöfnum en ákveðnum hraða. Fann þegar ég steig niður af hjólinu að kannski hafði keppnisskapið eitthvað hlaupið (hjólað) með mig í gönur. Lappirnar nötruðu allar en ég náði að setjast á næsta bekk áður en ég hreinlega hrundi í gólfið. Þjálfi hæstánægður með þetta og sagði að ég ætti núna bara að vera grimmur og stefna á 5 kílómetra í næsta tjékki. Ég reyndi að brosa út í annað en fann að ég varð að komast inn í klefa. Lappirnar voru smástund að kaupa þá hugmynd að hreyfa sig meira en það tókst á endanum og ég náði að halda kúlinu gagnvart þjálfaranum þangað til ég var horfinn inn í klefa. Þegar þangað var komið inn fannst mér allt vera á fleygiferð og ég fann hvernig blóðbragðið fyllti munninn. Komst í sturtu en rétt náði að skola það helsta af mér en þá fannst mér ég vera að líða út af. Náði að komst að næsta klósetti og settist þar til að þurrka mér. Eftir smá setu þar var ekkert annað en að koma sér í fötin og koma sér út. Kláraði síðasta hálftímann af vinnudeginum helfölur og hóstandi. Var í raun ekki orðinn þokkalegur fyrr en um kvöldmatarleytið heima.

Nú er ég sem sagt í vondum málum með því að hafa keyrt mig svona út, það stefnir í að næsta tjékk verði tóm vonbrigði. Mér er alla vega strax farið að kvíða fyrir hjólinu.

3 ummæli:

Nafnlaus sagði...

Góður Davíð.... kannski hugsa þetta aðeins til enda hahahahaaaa

Nafnlaus sagði...

Hehehehehehehe góður Dabbi. Spurning um að æla ekki yfir þjálfa

Guðjón Magnússon sagði...

Það er flott hjá þér að taka svona vel á