Eitthvað lætur þetta á sér standa. Mér var ekki alveg farið að lítast á blikuna þarna síðustu helgi, prófið mitt á mánudeginum og ég sá alveg fram á það að eitthvað færi að gerast kannski seint á sunnudeginum eða jafnvel snemma á mánudeginum. En ekkert gerðist og ég gat farið í prófið, reyndar með titrarastillingu á símanum ef eitthvað færi nú að gerast. En ekkert gerðist. Held að prófið hafi gengið þokkalega, eða ég vona það a.m.k., klúðraði reyndar smápakka en ég vissi nú eitthvað um hvað ég var að tala í öðru. Vonum hið besta og svo kemur þetta í ljós. Annars byrjar næsti kúrs á mánudaginn þannig að það er lítil pása.
Ég var því alveg klár í nýjan grísling bara þarna á þriðjudeginum, en viti menn, ekkert gerðist. Það var hringt í Siggu og hún fékk tíma í startsetningu á fimmtudaginn. Sem er á morgun. Ég stillti mig þá bara inn á það að þessi gríslingu væri ekkert að fara að koma svona að sjálfsdáðum þannig að ég gæti bara tekið því rólega þangað til. Enda hélt sagan svipuðum stíl og áður þessa tvo daga, ekkert gerðist.
Það er mæting sem sagt í fyrramálið að því gefnu að ekkert gerist í kvöld eða nótt. Þetta er frekar spes. Svona eins og að eiga tíma hjá tannlækninum, þú bara mætir á fyrirfram ákveðnum tíma og hlutirnir eru gerðir og græjaðir. Reyndar er þetta vitaskuld aðeins viðameira en tannlæknirinn en þið vitið vonandi hvað ég meina.
Að lokum átti að fylgja hérna spá fjölskyldunnar um kynið sem kæmi úr pakkanum en þar sem 75% af þátttakendunum breyta spá sinni nánast oft á dag þá gengur það ekki upp. Það er ljóst að þetta er annað hvort dramadrottning sem vill láta bíða eftir sér eða drengpjakkur sem er fyrst og fremst óstundvís.
Ég ætla að giska á pjakkinn, bara svona til að segja eitthvað.
miðvikudagur, mars 25, 2009
Gerast áskrifandi að:
Birta ummæli (Atom)
3 ummæli:
Ég held að þetta sé dramadrottning sem vill láta bíða eftir sér, svona til að hafa ekki sömu tillögu og þú.
Vonandi gengur þetta hratt og vel fyrir sig. Ég sendi hlýja strauma til ykkar og hlakka til að fá að vita hvað kemur úr pakkanum.
Kveðja,Inga
Greinilega rétt gisk hjá þér Davíð :0) Innilega til hamingju með drenginn !
Knús á línuna
Kristnibrautargengið
Innilegar hamingjuóskir með litla prinsinn. Ég var reyndar á því að þetta væri lítil dramadrottning :-)
Kv,
Gulla
Skrifa ummæli