mánudagur, ágúst 10, 2009

Króksmótið 2009

Skaust til Sauðárkróks um helgina en Ísak Máni var að keppa þar í fótbolta á Króksmótinu svokallaða. Fórum einmitt í fyrra og vissum því aðeins hvað við vorum að fara út í. Fjölskyldan var mikið búin að spá í hvort hægt væri að gera einhverja fjölskylduferð úr þessu en ákváðum að réttast væri að ég færi með strákinn á meðan frúin tæki því rólega heima með Loga Snæ og Daða Stein. Eftir að hyggja var það líklega rétt ákvörðun, það hefði verið fullerfitt að vera með einn 5 ára og einn 4ra mánaða á kantinum.

Þessi ferð var með sama sniði og í fyrra, þ.e. þjálfarateymi flokksins komst ekki með og foreldarnir sáu því um að stjórna öllum pakkanum. Ég fékk að hola mér niður í skólanum með liðinu og það lá því beinast við að mér yrði falin farastjóra/þjálfara/umsjónarmannsstaðan í liðinu hjá Ísaki Mána. Það vildi reyndar þannig til að í liðinu hjá Ísaki Mána voru bara 7 leikmenn og því engar áhyggjur af því hver ætti að byrja á bekknum og þessháttar. Þetta var rosalega gaman og liðinu gekk nokkuð vel. Misstu 3:1 forystu á móti Fram í 3:3 jafntefli í síðustu sókninni og úrslitaleikurinn hvarf þar nánast. Síðasti möguleikinn á honum var að Fram tapaði síðasta leiknum sínum en þar náðu þeir að jafna undir lokin og fögnuðu eins og heimsmeistarar, úrslitaleikurinn var þeirra. Við þurftum því að láta okkur nægja að spila um 3ja sætið en áttum litla möguleika í sterkt lið Breiðabliks. Sárt fyrir drengina þar sem bikarar voru í boði fyrir þrjú efstu sætin. Reyndar lentu hin tvö ÍR liðin líka í 4. sæti og því smá svekkelsi í gangi þrátt fyrir fína frammistöðu. Svo var lítið annað en að rúlla sér heim á eftir öllum fellihýsunum og tjaldvögnunum á sunnudeginum. Rosalega var ég sybbinn á mánudagsmorgninum, það verður bara að segjast.

Ísak Máni spilaði fyrstu tvö leikina í vörninni en tók síðustu fjóra í markinu

Engin ummæli: