Stórfjölskyldan skellti sér til Grundarfjarðar um daginn. Nokkuð gott dæmi eins og venjan er, nema það að við vorum varla komin inn um dyrnar þegar Daði Steinn tekur upp á því að skella hausnum á sér utan í borðstofustóll hjá ömmu sinni. Vænsti skurður á augabrúnina og blóð með því. Sunnudagur og því lítið annað að gera en að fylgja eðlilegu ferli og hringja í 112 og kalla út sveitalækninn. Eitthvað húðlím skellt á kappann ásamt klemmuplástri og málið dautt. Sundferð fjölskyldunnar til Stykkishólms sem búið var að ráðgerða næsta dag varð bara með 3/5 þátttöku.
Næsta ferðalag okkar var Akureyri City. Ísak Máni að keppa á N1-mótinu sem byrjar reyndar ekki fyrr en núna á morgun en við ákváðum að nota tækifærið og taka smá forskot á sæluna í höfuðstað norðursins. Jóhanna skaut yfir okkur skjólshúsi og allt klárt. Komum seinnipartinn í gær og allt í góðu. Pöntuðum pizzur á Greifanum í kvöldmat og farið að ráðgera morgundaginn. Sundferð kom sterk inn. Hvað um það, eftir að börnin eru komin upp í rúm heyrist allt í einu skaðræðisöskur frá Loga Snæ. Þegar að var gáð virtist hann hafa skellt hausnum í rúmbotninn hjá Ísaki Mána en rúmin lágu saman, eins furðulegt og þetta hljómar. Fékk hann við það myndanlega skurð á hausinn og blóð með því. Eftir úrskurð frá hjúkrunarfræðingsnemanum var lítið annað en að bruna með drenginn á viðkomandi sjúkrastofnun hér í bæ. Húðlímið ekki nóg og því voru 3 spor skellt í hausinn á piltinum. Í dag var nú samt ákveðið að láta ekki þetta „smá“ óhapp setja allt á annan endann og samkvæmt læknisráði var sundferð hjá Loga í lagi ef hann fengi sundhettu. Það var því einfaldlega versluð sundhetta og mætingin var í þetta skiptið 5/5. Fínasta sundferð í flottri sundlaug.
Sumarfríið mitt er nú að styttast í annan endann og líklega náum við ekki öðru ferðalagi í bili. Held að Ísak Máni sé manna fegnastur með það enda er hann næstur í röðinni. Það yrði eflaust alveg bannað að tala nokkuð um sundferðir í þeirri för.
þriðjudagur, júní 29, 2010
Gerast áskrifandi að:
Birta ummæli (Atom)
Engin ummæli:
Skrifa ummæli