Undirritaður búinn að vera tæpa viku í fríi. Samkvæmt pappírum eru tvær vikur í fæðingar-/feðraorlof og svo þrjár vikur í sumarfrí strax þar á eftir. Konan enn að vinna og ég því í því virðingarverða hlutverki að vera heimavinnandi húsmóðir.
Logi Snær er hættur í leikskólanum og er því að chilla með karlinum og litla bró en fær stundum að vera fluga á veggnum part úr degi með mömmu sinni, getum kallað það skólaaðlögun. Hann er á fljúgandi siglingu í reiðhjólafærni og fékk nýtt hjól í dag. Reyndar var það notað en með aðstoð netins var hægt að finna fína græju á viðráðanlegu verði, menn verða að bjarga sér í kreppunni. Ótrúlegt hvað drengurinn hefur eflst í þessu, hann var hálfvælandi bara núna í vor á 16" hjólinu og í mesta basli með að taka af stað. Nýja hjólið er 20" 6 gíra hjól og engar fótbremsur og gaurinn ekkert smá montinn.
Ísak Máni er kominn í sumarfrí frá skólanum frá og með deginum í dag. Ekki eins og það sé nú mikil afslöppun framundan hjá honum, fótboltinn tekur drjúgan tíma, körfuboltabúðir framundan um helgina, eitthvað námskeið í næstu viku og svo fékk hann sér reit í skólagörðunum til að rækta kartöflur og með því, í dauða tímanum sínum.
Ég hef sést á æfingum með Old-boys Fylkir og búinn að spila tvo leiki með þeim. Úrslitin ekki verið að detta með okkur en það er fín gleði í þessu og það er nú fyrir mestu. Spilaði m.a. á móti fyrrverandi landsliðsþjálfaranum Eyjólfi Sverrissyni og náði að koma í veg fyrir að hann skoraði en varð ekki jafnágengt með sjúkraþjálfara sem vinnur á stöðinni sem Ísak Máni fer alltaf til þannig að það er spurning hvort ég þurfi að finna nýja sjúkraþjálfara fyrir hann.
Þessa dagana er maður að passa sig að eiga enga peninga svo þeir étist ekki einfaldlega upp fyrir framan augu manns. Keypti mér nýja linsu (notaða, bjarga sér í kreppunni muniði) en þetta er samskonar græja og ég leigið mér hérna um daginn. Hnífskarpur andskoti og ég verð að finna mér eitthvað gott tilefni til að leika mér með gripinn.
föstudagur, júní 04, 2010
Gerast áskrifandi að:
Birta ummæli (Atom)
Engin ummæli:
Skrifa ummæli