þriðjudagur, júní 15, 2010

HM byrjað og ég enn hérna

5. í HM að kveldi kominn. Það viðurkennist hér með að ég hef ekki gefið mér tíma til að horfa á einn heilan leik af þeim 14 leikjum sem búnir eru, þrátt fyrir að vera í fríi. Reyndar hef ég séð glefsur úr þeim flestum og stóran hluta af einhverjum. Vandamálið er kannski að þetta fer voðalega óspennandi af stað, lítið um mörk og hugsunin að tapa ekki fyrsta leik voðalega ríkjandi. Kannski hefur þetta alltaf verið svona, veit ekki. En það hlýtur að færast fjör í þetta þegar menn verða komnir með bakið upp við vegg.

Annars skil ég ekki hvað ég er að gera hérna sitjandi heima í Breiðholtinu, hnoðandi þessa færslu. Þetta var svo skotheld hugmynd þegar ljóst var að við værum að tala um Suður-Afríku 2010 og Villi búsettur þarna í næsta nágrenni að smella sér á eitt stykki flugfar þarna niðureftir og taka nokkra leiki. Háttsetti Namibíubúinn hlyti að geta hringt einhver símtöl yfir lækinn og reddað VIP-pössum. Ég sá mig alveg vera nartandi í dýrindis snittur innan úr glerbúri á besta stað og rölta svo niður í players lounge eftir leik til að taka í spaðann á einhverjum nöfnum.

Þó ekki nema bara til þess að upplifa það að vera á vellinum á meðan annar hver maður blæs í þessa lúðra sína, spurning hvort þetta suð sé jafnóþolandi á staðnum sjálfum og í gegnum viðtækin.

Kannski einhver smásjens að Villi verði búinn að flytja sig til Suður-Ameríku fyrir Brasilíu 2014, hann á víst þá heimsálfu eftir.

"Ungfrú, kannski annan bjór með þessum snittum takk."

2 ummæli:

Litið blogg úr villta vestrinu sagði...

eeee... bara að minna á að allir boltaleikir eru bannaðir inni á mínu heimili og það gildir um fullorðna og börn, bara svo það sé á hreinu þegar þú og co koma norður ;)

Villi sagði...

Voðalega ertu 2007...