Ég fékk reyndar oft það komment þegar konan var ólétt af Daða hvort við værum að „reyna við stelpuna.“ Ég hef nú aldrei skilið það þegar fólk ætlar að skella í einn grísling enn og ætlast til að það sé annað hvort kynið, hvort ástæðan sé að jafna einhver kynjahlutföll eða einhver önnur. Hvað gerir maður svo þegar „vitlaust kyn“ kemur úr pakkanum? Verður ógeðslega fúll og reynir aftur? Og aftur? Fyrir mitt leyti var tekin sú ákvörðun að það skipti ekki öllu máli hvort Wíum III myndi pissa standandi eða sitjandi (reyndar segir Jóhanna systir að allir eigi að pissa sitjandi). Þegar svo Daði Steinn kom í ljós og dró andann þá skipti meira máli hvort það væru 10 tær og 10 fingur, ekki hvort hann væri með félaga eður ei. Góðu fréttirnar við það að Daði Steinn var strákur voru kannski þær að maður þekkti betur inn á gauragenið, einhvern tímann hef ég talað um hvað ég verð týndur í Hello Kitty rekkanum í Toys"R"Us.
En ef hann hefði verið stelpa þá hefði það samt ekki orðið neitt mál. Ég hefði klárlega getað farið þarna út og verslað í bleiku deildinni í einhverjum sjoppum. Litla daman sem Logi Snær spilaði við síðasta sumar sýndi vel fram á það. Meira að segja legghlífarnar voru bleikar.