föstudagur, nóvember 12, 2010

Í vandræðum með sambandið

Einhver verktakasnillingur á vegum borgarinnar sem var að grafa hérna í hverfinu tók upp á því að slíta í sundur ljósleiðarann núna á þriðjudaginn síðasta. Það þýðir einfaldlega fyrir okkur ekkert sjónvarp, ekkert internet og enginn heimasími. Það sem þetta gerðist síðla dags þá var víst ekki hægt að fara í neinar lagfæringar fyrr en daginn eftir.

Ég man aðeins eftir sjónvarpslausum fimmtudögum en get því miður ekki sagt að ég munu eftir sjónvarpslausum júlí. Þetta þriðjudagskvöld var því ekki fjarri lagi, ansi róleg stemming þar sem tölvuna virkaði á mann sem ansi hreint aumingjalegri græja svona netlaus og svarti skjárinn á sjónvarpinu var hálffurðulegur svona á þriðjudagskvöldi. Ég tók þetta nú ekki alla leið og kveikti á kertum og ráfaði um á náttbuxum en maður reyndi að anda með nefinu og missi sig ekki í einhverja sjálfsvorkunn. Það var óneitanlega rólegri stemming á heimilinu, er ekki frá því að kvöldlesturinn fyrir Loga Snæ hafi verið afslappaðri en oft áður.

Hlutirnir duttu reyndar ekki inn fyrr en um sex-leytið í miðvikudagskvöldinu og þrátt fyrir alla þessa yfirlýstu afslöppun frá því kvöldinu áður þá var ég mjög feginn, maður ætlaði sko ekki að missa af Man City - Man Utd í kassanum. En eftir að hafa eytt 90+ mínútur í það hálfdapra markalausa jafntefli þá hefði kannski verið nær að hafa dautt á draslinu og lesa meira af ævintýrum Bangsímons í staðinn.

Engin ummæli: