miðvikudagur, apríl 20, 2011

Misstór númer

Ég kíkti í gær upp í Garðabæ á 4. leikinn í úrslitaseríunni hjá KR og Stjörnunni í körfunni. Logi Snær og Ísak Máni komu með mér og svo voru Villi og Rúnar Atli sömuleiðis á svæðinu. KR vann og þar með Íslandsmeistaratitilinn á sanngjarnan hátt enda með talsvert sterkara lið en Stjarnan. Ekkert við því að segja.

Þessu ótengt á flestan hátt en samt ekki alveg. Í starfi mínu er ég mikið í ferðinni í umferðinni og sé marga bíla, einhverjir af þeim eru með einkanúmer. Mér finnst meirihluti af þeim sem ég hef séð húmorslaus og hreinlega leiðinleg. Ég skal reyndar viðurkenna að þegar fjöldi stafa sem menn hafa úr að moða er bara 2-6 þá er búið að setja talsverðar skorður á sniðugheitin. Tilfinningabröltið var svolítið ríkjandi þarna 1996 þegar þetta byrjaði, t.d. voru gömlu R-númerin vinsæl. Þau sjást enn, þó aðallega á Subaru Foresterum og svipuðum tækjum sem eknir eru af eldri mönnum með hatta. Svo er þetta eiginnafnadæmi sem persónulega hefur aldrei skapað mér holdris, JÚLLI og BEGGA eru ekkert að gera neitt fyrir mig.

Mér hefur líka þótt hálfskrítið að sjá einkanúmer á druslum sem varla hanga saman nema bara af því að það er svo gott í ryðinu á þeim. Bílar sem hæplega væri hægt að selja fyrir andvirði einkanúmersins ef út í það væri farið. Mér finnst samt óþarfi að tengja einkanúmerin við eitthvað snobb en bílinn verður að vera svona í yfirmeðallagi útlítandi. Mitt mat.

Þá fór ég að hugsa um bílana sem bera íþróttafélagsnöfnin sem er annar kapítuli út af fyrir sig. Maður myndi varla tengja klúbbinn sinn við Opel Astra ´96 módelið með beygluðum stuðara og skrúfjárni í innanverðum glugganum sem hefur það verkefni að halda rúðunni upp. Varla. En svo er spurning hvort þeir bílar sem hafa þessi íþróttanúmer séu þverskurður af þeim viðhorfum sem við höfum til félaganna og tilheyrandi bæjarfélaga/hverfa? Þrátt fyrir að mér finnst að UMFG ætti helst heima á dökkblárri Subaru bifreið við Grundargötu 68 í Grundarfirði þá skilst mér að það bílnúmer sé vísun í minni klúbbinn með þessu sama nafni í Grindavík. Hef nú séð hann og það er einhver sæmilegasti jeppi, kannski ekki alveg kvótakóngurinn alla leið en alveg vel sæmilegur. VALUR er ekki alveg marktækt dæmi því ég man eftir því að það var eitthvað strákgrey frá Akranesi sem fékk sér þetta númer og féll inn í eiginnafnapakkann. Hann var ekki mikið íþróttasinnaður og ég held að hann hafi ekki alveg fattað þetta strax að sennilega væri ekki sterkur leikur að bera þetta númer upp á Skaga. ÍR númerið er á nýlegum bláum Skoda Octavia station og svo sá ég FYLKIR um daginn, svartur Hyundai Santa Fe, ekki alveg nýjasta sort en allt í lagi. Ég man nú ekki eftir fleirum í augnablikinu nema...

...KR. Sá hann beygja inn af Miklubraut inn á Hofsvallagötu um daginn. Kolsvartur Range Rover af nýrri gerðinni, a-la 2007.

Það er eitthvað við þennan klúbb sem ég er ekki alveg að kaupa en hvað veit ég? Ég er bara í Skoda station hverfinu.

3 ummæli:

Villi sagði...

Aumingja Júlli og Begga...

Unknown sagði...

U2BONO er alveg með þetta.

Jón Frímann sagði...

Þú vilt sem sagt ekki meina það að Jói Gæa sé töff einkanúmer?