Meðal skemmtiatriða á föstudagskvöldinu var knattspyrnuleikur milli Grundarfjarðar og Ísbjarnarins í 3ju deildinni, atburður sem var reyndar ekkert skemmtilegur fyrr en undir lokin þegar heimamenn tryggðu sér sigurinn í leik sem þeir voru að tapa þegar skammt var eftir. Ekki er annað hægt en að hrósa þeim sem standa að liðinu, ég hef aldrei farið á leik svo ég muni eftir þar sem sushi-bitar voru seldir í sjoppunni. Einnig var uppboð í hálfleik á áritaðri Grundarfjarðartreyju sem var slegin á 30.000 kall. Sá eldheiti heiðursmaður skellti sér strax í treyjuna en var orðinn sótsvartur af pirringi þegar ekkert virðist ætla að ganga hjá liðinu. Spígsporaði fram og aftur í brekkunni og lét svo eitt gullkornið flakka: „Af hverju hlaupa þeir ekkert. Helv... maður, ég verð að komast inná. 100 þúsund kall og ég fæ að fara inná, ég er í treyju og allt.“ Það er bara einn Geiri Ragga.
Að flestu leyti var þetta bara hefðbundin hátíð, grillveislan, leiktæki, fimleikasýning, skrúðgöngur og brekkusöngur. Mér fannst reyndar færra fólk en oft áður en fyrir mitt leyti var það ekkert verra, þægilegt að rölta um hátíðarsvæðið í góðum gír án þess að þurfa að hafa áhyggjur af því að stíga á einhverjar tær. Kannski einhverjir aðrir sem sjá þetta með öðrum augum.
Engin ummæli:
Skrifa ummæli