mánudagur, júlí 04, 2011

Enn eitt mótið á Akureyri 2011


Áfram var haldið til móts við knattspyrnumót sumarsins. Nú var stefnan tekin á Akureyri, á N1 mótið fyrir 5. flokk karla þar sem Ísak Máni var að keppa.
Við í fimm manna fjölskyldunni tókum ferðalagið norður í tveimur pörtum, lögðum af stað um kvöldmatarleytið á þriðjudaginn síðasta og tókum stefnuna á bústað í Hrútafirði, rétt við Staðarskála, þar sem aðrir fimm ferðalangar í sömu erindagjörðum og við höfðu til ráðstöfunar og buðu okkur svefnpláss. Það var því þægilegri rúnturinn inn á Akureyri á miðvikudeginum heldur en að þurfa að taka þetta í einum rykk.


Mættum norður í hálfkuldalegt veður og það gekk á með skúrum. Sem betur fer var bara einn leikur þann daginn þannig að það var hægt að dunda sér í einhverju öðru. Við vorum búin að taka á leigu litla tveggja herbergja íbúð í miðbænum, Ísak Máni svaf í skólanum hjá liðinu. Þeir dagar sem voru í vændum urðu mjög vænlegir veðurlega séð, svo góðir að nokkur nef náðu að brenna. Hálfótrúlegt í ljósi þess að maður hafði verið hérna ansi þungur á brún þegar styttist í brottför og flestar veðurspár sáu bara blautt, þær reyndar fóru batnandi þegar nær dró. Það var ekki fyrr en á lokahófinu á laugardagskvöldinu að það fór að rigna aftur. Við vorum með kofann á leigu fram á sunnudag og reyndum að gera ferðalagið heim eins bærilegt og hægt var. Stoppuðum á Blönduósi og fórum í sund áður en haldið var áfram heim.


Boltalega gekk þetta ágætlega, tapleikirnir urðu reyndar fleiri en sigurleikirnir hjá Ísaki og félögum en C-liðið lenti í 14. sæti af 28 liðum þannig að það má segja með réttu að þetta hafi verið svona medium. Guttinn fékk heilmikinn spilatíma, enda fyrirliði liðsins og sinnti varnarskyldum sínum af prýði. Hin ÍR liðin voru svona á allskonar róli, A-liðið lenti í 23. sæti af 28 A-liðum, B-liðið í 12. sæti af 28 og F-liðið í 6. sæti af 28 F-liðum.


Heilt yfir var þetta því fínasti túr. Undirritaður er reyndar að fara til vinnu á morgun og verð í því út þá næstu en eftir hana er ráðgert að taka sér eitthvað ágætisfrí. Ekkert mikið skipulag í gangi nema að ekki erum við laus við knattspyrnumót sumarsins því í byrjun ágúst fer Ísak Máni á Selfoss en Logi Snær á Sauðárkrók ... sömu helgina. Meira um það síðar.

Aftari röð: Rökkvi, Dagur, Tristan, Snorri og Ísak
Fremri röð: Magni, Viktor, Antoníus og Ævar
Fremstur: Andri

1 ummæli:

Blogger sagði...

eToro is the best forex broker for rookie and professional traders.