sunnudagur, febrúar 05, 2012

Erfitt sumar fyrir suma

Veturinn hefur verið ansi vetrarlegur, mikil snjór og kuldi með því. Það er því lítið sem hefur minnt á sumarið núna fyrstu tvo mánuði ársins, a.m.k. veðurlega séð. Hinsvegar fer hugurinn að tengjast sumrinu þegar íslenskir knattspyrnumenn fara að hefja keppni í þessum "upphitunarmótum" fyrir sumarið sem hefjast oftar en ekki í janúar ár hvert. Reykjavíkurmótið er eitt þeirra og þar var hverfisklúbburinn vitaskuld að taka þátt. Ég var að mörgu leyti forvitnari en oft áður, aðallega vegna þess að þjálfari liðsins frá síðasta sumri taldi sig vera kominn á endastöð með liðið og tók hatt sinn og staf og yfirgaf Breiðholtið og í kjölfarið hurfu á annan tug leikmanna og þótt eitthvað hafi komið af nýjum mönnum í staðinn þá fór minna fyrir því. Ég var nú samt ekki svo langt leiddur að ég dröslaði mér á þessa leiki en sökum fyrrnefndrar forvitni þá tók ég fyrsta leikinn í beinni á netinu fyrst það var í boði, leikur gegn úrvalsdeildarliði Fram. Segjast verður að áhyggjur mínar af þessari endurnýjun reyndust á rökum reistar, 5:0 tap og mínir menn skítlélegir svo ekki sé sterkara að orði kveðið. Tap í næsta leik, 0:1 gegn Víkingi, var þó aðeins skárra en svo tók við 0:3 tap á móti nágrannaliðinu sem maður nefnir helst ekki á nafn. Lokaleikurinn í þessu móti var svo gegn KR og enn náðu ÍR-ingar ekki að skora mark og fengu nú enn fleiri mörk á sig en áður, 0:9 endaði þetta. 4 leikir, 4 töp og markatalan 0:18. Veit ekki hvað skal segja með stemminguna fyrir sumarinu hvað þetta varðar en reyndar er enn bara febrúar þannig að menn hafa enn tíma til að girða sig í brók og æsa upp stemminguna. Verð kannski bara að treysta á uppáhaldssveitaliðið fyrir gleði á vellinum í næsta sumar.

1 ummæli:

Villi sagði...

Þú verður bara að játa þig sigraðan og færa hollustun upp í það efra