miðvikudagur, janúar 23, 2013

Ferming nr. 1

Jæja, þetta er ekki nokkur frammistaða.  Tæpar 3 vikur síðan stórviðburður var og ekki bofs á þessum miðli fyrr en seint um síðir.

Stórviðburður já, frumburðurinn var fermdur þann 6. janúar síðastliðinn, á þrettándanum.  Ekki hefðbundinn tími en stundum er allt í lagi að hugsa út fyrir kassann og fylgja ekki bara straumnum eins og hinir.  Ísak Máni fór að mæta til prestsins í haust eins og lög og reglur gera ráð fyrir á þessum aldri og allt leit eðlilega út.  Við vorum farin að sirka út fermingardaginn 7. apríl þegar karlinn fékk allt í einu hugmynd.  Villi og co á landinu um áramótin (mínus Tinna, sem var sárt saknað) og því ekki að reyna að ná eins góðri heildarmætingu og hægt væri í þennan viðburð þótt það þýddi smávægilegar tilfæringar?  Ég fékk staðfestan brottfaratíma hjá Malaví genginu og hélt með það til prestins til að sjá til hvort hann væri tilkippilegur í smá snúning á þessu.  Já, hann var svo sem alveg að kaupa mín rök en gat þó skiljanlega ekki kvittað undir það að fermingarfræðslan frá áramótum og fram undir vorið væri óþarfi.  Var því samið um það að drengurinn yrði að klára alla sína messu- og utanbókarlærdómsskyldu fyrir áramót og fengi svo að fermast 6. janúar en á móti yrði að klára fermingarfræðsluna með hópnum.  Eftir að þetta tilboð var lagt undir Ísak Mána, sem var meira en klár í þetta, var kvittað undir samninga.

Ísak Máni og Gísli Jónasson prestur

Fermingin sjálf var mjög fín.  Fáir í kirkju og við gátum bara mætt með þá sem við vildum og mannskapurinn plantaði sér bara á fremstu bekkina tvo eins og konunglegur aðall.  Þetta var allt á persónulegum nótunum en eins og menn geta getið sér til um þá var hann einn að fermast þennan dag.  Mamman og pabbinn fengu sitt hlutverk í upplestri á ritningarlestri svona til að poppa þetta upp.  Eftir góðan og rúmlegan klukkutíma var haldið niður í vinnu hjá undirrituðum en þar var veislan haldin.  Mæting var alveg hreint fín, um 50 manns eins og ráð var gert fyrir.  Eftir salt- og reykjarsmurningu síðustu dagana þarna á undan var talið réttast að bjóða upp eitthvað léttara og var kjúklingasúpa með mexíkönsku yfirbragði fyrir valinu, ásamt einhverjum kjötbollum og lambapottrétt svona ef menn legðu ekki í súpuna.  Eftir var súkkulaðikaka með frönsku ívafi og kaffi.

Held að þetta hafi tekist bara bærilega, a.m.k. var ekki hægt að fá annað upp úr fermingardrengnum og gaman að hitta marga ættingja sem var komið alltof langt síðan síðast. 

Súpan þótti vel heppnuð
Og kakan var ekki síðri
Fermingardrengurinn
Ekki á hverjum degi að þetta lið er á sama stað

Engin ummæli: