miðvikudagur, janúar 02, 2013

2013 mætt

Enn einum áramótunum lokið sem þýðir að enn eitt nýja árið er gengið í garð.  Dvöldum upp í Æsufellinu á meðan vistaskiptin gengu yfir, enda þau malavísku á svæðinu.  Sporðrennt var velheppnuðum kalkúni ásamt saltkjöti og baunum eins og venjan er orðin og Toblerone ísinn hennar Dagmarar fékk svo fullt hús stiga í lokin.
Hefðbundið annars, sem er hið besta mál.  Eitthvað skotið upp eins og gengur og gerist, alltaf finnst manni þetta jafnmikil klikkun þegar maður stendur þarna á hæðinni og horfir yfir sviðið.  Íslendingum finnst ekki leiðinlegt að sprengja eins og nokkrar bombur.

Ísak Máni og Daði Steinn með allt á hreinu
Logi Snær eitthvað hissa yfir þessu öllu
Gamlársdagurinn hafði nú annars byrjað hressilega, Sigga tók þátt í Gamlárshlaupi ÍR í annað skiptið í röð.  10 km í svona fáránlegum kulda að það er ekki hægt að heimfæra þetta niður á nokkur eðlilegheit.  En í mark kom kellan á fínum tíma, bið að afsaka myndgæðin en snjallsíminn virkar ekki vel í mínus fjórum.  Ekki ég heldur ef út í það er farið.  Skyrta og bindi var víst einkennisklæðnaður ÍR-inga þetta árið.  Annars sá ég jólasveininn, nokkrar Línu Langsokkur, gaur í jakkafötum og Thing 1 og Thing 2 sem mér fannst nokkuð vel heppnað.  Skrítnastur fannst mér eiginlega fýrinn sem var í hlýrabolnum og hlaupastuttbuxunum en hvað veit ég.

Engin ummæli: