laugardagur, janúar 26, 2013

Í London

Var í London um síðustu helgi.  Og þegar menn eru í London þá er farið á fótboltaleiki.

Út á föstudegi og gist á Chelsea hótelinu á Stamford Bridge, þetta fer að verða vandræðalegt.  Ræs snemma á laugardagsmorgni því menn þurftu að ná lestinni til Liverpool en ferðinni þann daginn var heitið á leik Liverpool - Norwich á Anfield.  Karlinn aldrei komið þangað og talsverður spenningur í að upplifa þessa margumtöluðu, þú-röltir-aldrei-einn stemmingu sem átti víst að vera alveg andstæðan við asísku-myndavéla-túrista stemminguna sem er víst gjarnan í Old Trafford.  Lestarferðin tók rúma tvo tíma, margir að fara á leikinn miðað við klæðaburðinn á stórum hluta mannskapsins.  Við komuna í Liverpool var hoppað upp í taxa og beint upp á völl enda var áætlunin að reyna að soga í sig eins mikla stemmingu og hægt væri.  Tróðum okkur inn á pöbbinn þarna á móti vellinum, Park minnir mig að hann heitir.  Róleg stemming þegar við komum en þetta fór að hressast þegar nær dró leik.  Bjór í plastglösum og maður var með handakrikann á næsta manni alveg í andlitinu, alveg eins og þetta á að vera.  Einhverjir á vegum íslenska Liverpoolklúbbsins á svæðinu, hvar hittir maður ekki Íslendinga?

Leikurinn sjálfur var flott skemmtun að því leytinu til að heimamenn voru miklu betri og gestirnir gátu ekki rassgat, 5:0 öruggur sigur.  M.a. Suarez og Steven Gerrard með flott mörk og nýji maðurinn, Daniel Sturridge með mark í sínum þriðja leik í röð og í fyrsta sinn í byrjunarliðinu á Anfield.  Varð reyndar fyrir smávonbrigðum að því leytinu til að ég var alltaf að bíða eftir söngnum úr stúkunni undir lok leiksins en hann kom aldrei.  Hann kom reyndar fyrir leikinn, svona yfir undirspili út hátalarkerfinu en ég vonaðist til að heyra þetta alveg hreint úr stúkunni.  Það fór þannig að upp úr 80. mínútu fór straumur fólks að láta sig hverfa, sem mér finnst alltaf jafn dapurt, alveg sama hvar ég er.  Eftir leikinn var stoppað á einum pöbb svona til að ná eftir-leiks stemmingunni áður en haldið var upp á lestarstöðin aftur því planið var að koma sér hið snarasta í menninguna aftur.

Í lestinni heim sátu hjón frá Norwich með 12 ára son sinn með sér við hliðina á okkur og það var eitthvað verið að spjalla.  Maður gat ekki annað en dáðst að þessu liði, ársmiðahafar hjá Norwich og fara á mjög marga útileiki líka.  Þau þurftu að taka tvær lestir sem hvor um sig tók rúma tvo tíma, aðra leiðina!  Í grunninn tók t.d. þessi leikur þau allan laugardaginn og til þess eins að horfa á sína menn skíttapa, þeir fengu held ég einhver tvö hálffæri í öllum leiknum.  Í vagninum okkar var sjoppan staðsett, þar sem hægt var að kaupa veitingar.  Þegar lestarferðin er eitthvað á veg komin birtist ungur maður í vagninum okkar, merktur Norwich frá toppi til táar.  Hann vakti svo sem enga athygli hjá mér enda góður slangur af mannskap í gulum og grænum fötum í lestinni.  Hjónin frá Norwich tóku hinsvegar kipp í sætinu og í ljós kom að þarna var mættur leikmaður Norwich, Pilkington að nafni.  Ég var nú ekki alveg að kveikja í upphafi en einn af samferðarmönnum mínum rifjaði það upp að þessi drengur skoraði víst sigurmark Norwich á móti Manchester United fyrr á tímabilinu.  Það má sjá -HÉR- til upprifjunar.  Það kom svo í ljós að einhverjir 4-5 leikmenn Norwich voru í lestinni.  En stemmingin varð svo ansi sérstök þegar fór að hvissast út að sjálfur Steven Gerrard, leikmaður Liverpool, væri líka í lestinni.  Ég verð að viðurkenna að ég var ekki alveg að kaupa það til að byrja með, hvað í andskotanum svona kappi væri að dröslast í almenningssamgöngum, tala nú ekki um í fullri lest af fótboltabullum.  En þegar hluti af ferðafélögum mínum voru búnir að rölta fram í Saga Class vagninn og staðfesta að þarna væri kappinn þá gat ég ekki annað en tékkað á þessu.  Eftir að hafa labbað í gegnum endalaust af vögnum þá var komið í lokavagninn og eftir að hafa labbað framhjá þessum áðurnefnda hluta Norwich-liðsins, sem ég þekkti nú hvorki haus né sporð á, þá sat Hr. Liverpool þarna innan um einhverjar stífmálaðar guggur og var frekar var um sig.  En ég lét mig samt hafa það enda þénaði hann líklega meira á þessum rúmum tveimur tímum sem lestarferðin tók heldur en ég næ að nurla saman á heilu almanaksári.  Tók í spaðann á honum og lét fylgja sögunni að ég væri frá Íslandi en fór ekkert út í hverja ég styddi í enska boltanum.  Kappinn var ekki til í myndatöku á þessum tímapunkti, en sagðist vera meira en klár í það þegar lestarferðinni lyki.  Ég var nefnilega svo mikið að fara hitta hann þá, eða þannig.  En hann var alveg kurteis og allt það, helst að D&G guggurnar væru með hálfgerða skeifu yfir þessum stöðuga straumi af fólki.  Ég stoppaði nú aðeins í þessum vagni, átti m.a. spjall við Breta sem hafði komið til Íslands í dýrari týpuna af steggjapartýi fyrir einhverjum árum.  Á meðan ég sat þarna komu einhverjir á röltu þarna þannig að eitthvað þurfti Stevie G að spjalla við gesti og gangandi.  Ég ákvað samt að láta duga að hafa tekið í spaðann á kappanum, myndin verður að bíða þangað til næst.

Á sunnudeginum var svo síðari leikurinn, Chelsea - Arsenal á Brúnni.  Hádegisleikur en stutt að fara af hótelinu.  Mikil stemming í loftinu enda tvö stór Lundúnarlið.  Leikurinn endaði með 2:1 sigri heimamanna, flottur leikur.  Annar kóngur á markaskónum af vítalínunni, Lampard sjálfur, það má sjá -HÉR-.  Einhverjir Arsenal aðdáendur sátu fyrir ofan okkur, Chelsea megin í stúkunni, en þeir komu upp um sig með því að fagna þegar Walcott minnkaði muninn og allt varð vitlaust.  Her öryggisvarða mætti með það sama og henti þeim út.  Í kjölfar látanna voru Chelsea stuðningmenn farnir að rífast líka, einum fannst greinilega dræmt tekið undir þegar hann reyndi að starta hópsöng með lagi sem hófst: "Stand up if you hate Tottenham...", svona eitthvað annarra-Lundúnaliða-diss.  Það endaði með því að honum var líka hent út á bílastæði.  Hérna erum við að tala um að ekki nokkur hræða var farin að láta sig hverfa snemma í þessum leik, þ.e. ekki nema þeim sem var hent út.

Eftir leikinn var húrruðum við okkur á næsta pöbb til að taka Tottenham - Manchester United á skjá.  Það höfðu reyndar verið smá pælingar um að reyna að skipta út Chelsea - Arsenal miðunum og reyna að fara í staðinn á White Hart Lane en eftir einhverjar eftirgrenslan þá voru of mikið af "ef" og "kannski" í þeirri heildarmynd.  Enda hefði maður víst þurft að bíta fast í handabakið á sér ef maður hefði þurft að sitja meðal Tottenham aðdáenda og horfa á þá skora þetta jöfnunarmark þeirra í uppbótartíma. 

Núna fer ég að tína tölfræðina mína saman, enska-fótbolta-leikja-brölt.  Ég held að það hafi verið áramótaheit fyrir 2012, en ennþá er ég ekki byrjaður að grafa þetta allt upp.  Þetta hlýtur að vera komið í einhverja 10 leiki eða svo.

Ég ætlaði nú að skreyta þennan pistill með nokkrum fátæklegum myndum en því miður tók 8 ára gamli MacBook Pro-inn minn upp á því að hætta að virka núna um helgina, skömmu eftir að ég var búinn að hlaða inn á hana nokkrum myndum.  Ef guð og lukka lofar, ásamt starfsmönnum verkstæðisins hjá Epli.is, fer hún í gang aftur og ég get hent inn smá myndasýningu í kjölfarið.

Ég myndi samt ekkert vera að bíða eftir myndinni af mér og Gerrard...

Engin ummæli: