Laugardagurinn hófst með fimleikaæfingu hjá Daða Steini. Honum finnst voða gaman þegar á hólminn er komið en hann hefur verið með smá mótþróa fyrir æfingarnar og tilkynnir okkur að hann sé hættur að æfa. Veit ekki hvort barnatíminn í sjónvarpinu hefur þar eitthvað að segja en við verðum að halda áfram. Af fenginni reynslu í gegnum tíðina eru þó morguntímar kl 10:00 svo margfalt betra en kl 09:00, það er alveg ótrúlegt hvað þessi eini klukkutími breytir þessu miklu.
Síðdegis tók við næsti dagskráliður, Íslandsmótið í svokölluðum Stinger í íþróttahúsinu í Seljaskóla. Þetta er þriðja árið sem ÍR og Karfan.is heldur þetta mót og ég hef nú fjallað um þetta hérna áður en Ísak Máni hefur alltaf tekið þátt. Núna var boðið upp á það að hafa þetta mót tvískipt í fyrsta skipti, þ.e. fullorðinsflokkur (12 ára +) og minniboltaflokkur (11 ára og yngri). Enn hafa menn ekki náð að rífa upp mætinguna mikið út fyrir hverfið þó sáust þarna m.a. KR-ingar þetta árið. Logi Snær tók þátt í yngri flokknum og gerði sér lítið fyrir og sigraði það. Hlaut í sigurverðlaun myndarlega medalíu, kassa af Gatorate, karfan.is svitaband, inneign á Nings og gjafabréf á einhvert 6 vikna stökkkraftsæfingaprógram sem verður mjög athyglisvert að sjá hvernig virkar. Menn verða þá kannski farnir að troða körfuboltanum fyrir fermingu. En kannski var fyrst og fremst heiðurinn að vera fyrsti Íslandsmeistarinn í Stinger í þessum flokki, það verður ekki tekið af honum. Verst finnst mér þó að drengurinn er ekki að mæta á æfingar það sem af er hausti, æfingarnar eru á sömu dögum og fimleikarnir og það er einhvern veginn ekki að virka. Veit ekki hvernig við leysum það. Ísak Máni keppti svo í fullorðinsflokknum og þar var myndarlegur hópur sem tók þátt, m.a. framtíðar, fyrrverandi og núverandi meistaraflokksmenn hjá ÍR ásamt einhverjum sem ég kann engin deili á. Ísak Máni náði að hanga inni í baráttunni lengi vel og var sá fjórði síðasti sem datt út og hafnaði því í 4. sæti sem verður að teljast mjög flottur árangur. Svo skemmtilega vildi til að sá sem lenti í öðru sæti og var á eftir Ísaki Mána í röðinni var með Go-Pro vél á bringunni og vitaskuld er það komið á netið. Það er því hægt að sjá hvernig svona leikur virkar og Ísak Máni græddi heilmikið á því að vera á undan honum í röðunni því vitaskuld var hann sjálfur mikið í mynd. Glittir meira að segja í undirritaðan undir lokin þegar hann var gripinn í aðstoðarhlutverk við medalíudreifingar. Myndbandið má sjá - HÉR -
Silfur og gull í minniboltaflokknum |
Sunnudagurinn átti að fara í meiri afslöppun, a.m.k. skipulagslaust dundur, horfa á fótbolta í kassanum og svoleiðis. Boltagláp er reyndar ekki alltaf afslöppun og svo var það ekki í dag. Man City flengdu Man Utd 4:1, skipti svo yfir á Valur-KR þar sem Vesturbæingar tryggðu sér Íslandsmeistaratitilinn í fyrsta sinn á Hlíðarenda og fylgdist jafnframt með á netinu þegar Ólafsvíkingar féllu aftur niður í 1. deild. Sá að lokum svo líka restina af Giants - Carolina í NFL sem fór 0:38, ekki gott. Einu flottu fréttirnar af boltanum í dag var 2:0 sigur Roma á Lazio, annað var meira bara rusl.
Engin ummæli:
Skrifa ummæli