föstudagur, september 20, 2013

Uppfærsla

Fyrir nokkru datt mér í hug að nördast svolítið og versla mér eitt stykki myndavél í svona aðeins öflugari flokknum en þessar hefðbundu vasamyndavélar.  Var samt ekki alveg 100% hvert ég ætlaði með þetta, Ísak Máni var í boltanum og mig langaði að prófa að vera gaurinn með græjurnar á hliðarlínunni, en sá mig samt engan veginn vera að brölta upp einhverja fjallshlíðar til að mynda einhverja fossa.  Ekki misskilja mig, ég get orðið alveg kjaftstopp af fegurð fjalla- og fossaljósmynda en ekki endilega mitt áhugasvið í framkvæmd.  Þróunin hefur líka verið líka sú að mér finnst langskemmtilegast að mynda sport, íþrótta- og actionmyndir en velheppnaðar svoleiðis myndir eru alveg priceless.  Mitt mat.

OK, ég var s.s. búinn að bröltast með mína Canon 400D (fyrir þá sem það segir eitthvað) og ódýru 75-300mm linsuna fyrir útimyndatöku en smellti 85mm 1.8 linsu á trýnið þegar Ísak Máni og Logi Snær í körfubolta voru myndefnið.  Karlinn var ekki alveg sáttur, of oft sem möguleiki á priceless stöffi varð ekki í fókus af því að fókussystemið á græjunni réð ekki alveg við þennan hraða.  Þá er því orðið svolítið síðan að ég vissi hvað ég vildi gera, eftir að hafa lesið mér til og rætt við fróðari menn.  Mig langaði að uppfæra græjuna upp í alvöru fallbyssu sem réði við hraða og læti.  Og ég bara gerði það.

Seldi gamla dótið, nema 85mm linsuna, til að redda fjármagni upp í gamlan ás, Canon 1D - Mark II (fyrir þá sem það segir eitthvað) og 17-40mm linsu.  Ég ætla að testa þetta í vetur og sjá hvað kemur út úr þessu, í versta falli selur maður þetta aftur og notar bara Samsung símann í myndatökur eins og allir aðrir.  Kannski dettur manni í hug að fara brölta á fjöll.


Engin ummæli: