miðvikudagur, nóvember 20, 2013

Næstum því á HM

Ég er enn að meðtaka þá staðreynd að fyrir rétt rúmum sólarhring var litla Ísland að spila úrslitaleik við Króatíu um sæti á HM.  Heimsmeistarakeppninni, lokakeppninni sjálfri.  Hvaða rugl er þetta?  Ég man eftir einum og einum flottum úrslitum hérna í gamla daga, jafntefli við gömlu Sovétríkin á útivelli, jafntefli við Frakka og sigur á Spánverjum heima á Laugardalsvelli, svo eitthvað sé nefnt.  En það var aldrei neitt heilstætt "run", meira svona eitt og eitt sem datt inn.
Núna er liðið skipað svakalega flottum strákum, með fullri viðingu fyrir fyrrverandi landsliðsmönnum, sem eru að spila í flottum deildum og eru bara drullugóðir í fótbolta.

Ég fór á fyrri umspilsleikinn á móti Króatíu, heimaleikinn.  Nei, ég vaknaði ekki kl 04:00 fyrir slysni og keypti mér miða heldur var ég einn af þeim plebbum sem var boðið á leikinn.  Skammast mín smá fyrir það en ákvað samt að vera ekki bara að éta rækjusamloku allan tímann heldur taka þetta all-in.  Stemmingin var líka frábær, það kom varla þögul stund sem var bara alveg hreint geðveikt.  Og að ná 0:0 jafntefli var rosalega flott, einum færri tæpan hálfan leikinn.

Það er því varla hægt að lýsa spennunni fyrir síðari leikinn í gær.  Synd að liðið hafi ekki náð að sýna sitt rétta andlit í 2:0 tapi.  En eins og fyrr segir er maður að reyna að meðtaka þennan árangur, sem er vitaskuld alveg fáránlega flottur.  Mikið vona ég að við fáum annan sjéns á þessu, það væri alveg geðveikt.

Það er nú ekki hægt að enda þetta á öðru en nokkrum línum um Eið Smára.  Það var varla hægt annað en að klökkna þegar fréttamaðurinn spurði hann eftir leikinn um framhald landsleikjaferilinn hjá honum og þessi magnþrugna þögn kom og Eiður Smári fór nánast að skæla þegar hann tilkynnti að þetta væri líklega hans síðasti leikur.  Þvílíkt legend og maður getur ekki annað en hugsað til þess hver staðan væri ef drengurinn væri 10 árum yngri.  Vonandi slær hann til og tekur þátt í undankeppni EM, maður vildi svo gjarnan fá aðeins meira af Eið Smára.  Það er þá algjört lágmark að færa honum kveðjuleik á Laugardalsvelli.  Nefnið bara stund og ég mæti.  Þó ég þurfi að kaupa miða um miðja nótt.  Tvöfaldur enskur meistari með Chelsea og meistari með Barcelona svo eitthvað sé nefnt, svo ekki sé minnst á meistaradeildartitilinn með Börsungum.  Sorry, en ég er ekki sjá að ég lifi það að sjá einhvern frá Íslandi toppa þetta.  Ég hef ekkert nema respect hvað Eið Smára snertir. 

#takkeiður

Engin ummæli: