Merkilegur dagur í dag. Á þessum degi fyrir fimmtíu árum var John F. Kennedy, þáverandi forseti Bandaríkjanna, skotinn til bana í Dallas. Það eru alltaf einhverjir atburðir í sögunni sem hafa það mikil áhrif á þá sem það upplifa að þeir muna nákvæmlega hvar þeir voru þegar þeir heyrðu af viðkomandi atburði. Ég man t.d nákvæmlega hvar ég var þegar ég heyrði af andláti Díönnu, prinsessu af Wales og einnig eftir 11. september 2001 þegar ráðist var á tvíburarturnana í New York.
Morðið á JFK er klárlega einn af þessum atburðum í sögunni sem allir muna eftir, þ.e. þeir sem upplifðu þetta. Nokkuð ljóst að ég er ekki einn af þeim, enda mætti undirritaður ekki á svæðið fyrr en einhverjum 12 árum síðar.
Pabbi byrjaði að halda dagbók á þessu ári, 1963 og hélt m.a. dagbók með hléum næstu 2-3 árin. Það er skemmtilegt að spá í það að þessar dagbókafærslur eru flestar svona bara almennt um það sem á dagana dreif hjá karlinum. Hvenær hann vaknaði, hvernig veðrið var, hvað hann var að bardúsa þann daginn o.s.frv. Ekkert um atburði líðandi stundar hvað þjóðmál og þessháttar varðar hérlendis eða erlendis.
Ef frá er talin þessi eina lína frá þessum degi fyrir fimmtíu árum. Magnað.
Föstudagur 22. nóvember 1963
Fór á fætur rétt fyrir 11, lét kvitta á síðustu nóturnar í bókunum.
Fór eftir hádegi að vinna við útskipun á mjöli, það stóð yfir til kl ellefu um kvöldið, ég hringdi á verkstæðið til Árna og hann tjáði mér að bíllinn yrði ekki búinn fyrr en eftir miðvikudag í næstu viku, það er ekkert hægt við því að segja, bara bíða.
Kennedy Bandaríkjaforseti var skotinn til bana í dag, þær fréttir komu í útvarpinu.
föstudagur, nóvember 22, 2013
Gerast áskrifandi að:
Birta ummæli (Atom)
Engin ummæli:
Skrifa ummæli