mánudagur, maí 05, 2014

Íslandsmeistarar 2014

Ísak Máni og félagar í 9. flokki létu tiltölulega nýlegan bikarmeistaratitil ekki nægja heldur náðu að tryggja sér stóru dolluna á dögunum.  Þurftu fyrst að etja kappi við Njarðvík í undanúrslitum áður en þeir kæmust í úrslit.  Þeir náðu að vinna þá 60:40 í Seljaskólanum, og eftir að hafa tapað bæði bikarúrslitaleiknum og undanúrslitunum í Íslandsmótinu fyrir ÍR þá held ég að það verði eitthvað lítið um jólakort frá Njarðvík upp í Breiðholtið þessi jól.

Úrslitin voru spiluð í Smáranum í Kópavogi og þar var Keflavík andstæðingurinn.  Keflvíkingarnir hafa verið ógnarsterkir í gegnum þessi ár en hafa aðeins verið að slaka á klónni.  En gríðarlega öflugir samt, til að hafa það á hreinu.  ÍR-ingar byrjuðu leikinn vel og voru yfir í hálfleik 35:26.  Keflvíkingarnir voru þó á því að vera ekkert að yfirgefa svæðið án baráttu og náðu að jafna í upphafi fjórða og síðasta leikhluta.  Útlitið var svo orðið svart fyrir ÍR, 4 stigum undir þegar lítið var eftir og 2 stigum undir þegar 11 sekúndur voru eftir og Skúli á vítalínunni fyrir ÍR.  Fyrra vítið fór ofaní en ekki það síðara, Hákon náði rándýru sóknarfrákasti en þurfti að hnoðast út í teig meðan leikurinn var að fjara út.  Hann tók skotið sem hitti ekki hringinn en Halli sá í hvað stefndi og greip blöðruna í loftinu og smellti henni ofaní um leið og klukkan gall.  Þakið ætlaði af kofanum og maður hefur aldrei orðið vitni af öðru eins.  Dómarar leiksins tóku sé það bessaleyfi að kíkja á upptöku af síðustu andartökunum, bara til að fullvissa sig um að sigurkarfan hafi verið skoruð áður en leiktíminn rann út.  Sem var niðurstaðan og þetta sem var nánast eins og lygasaga var bara engin lýgi.

Hérna er myndband sem tekið var upp á leiknum og m.a. lokaandartökin, magnaður skítur:Ísak Máni fékk sínar mínútur, náði nú ekki að setj´ann en sem fyrr var fínn í því sem er ætlast af honum.  Menn munu koma með að muna þetta það sem eftir er, frábær endir á glæsilegum vetri.

Rosaflottur dagur, margfalt fleiri í stúkunni ÍR-megin, hluti af meistaraflokki liðsins mætti á svæðið og stór hópur af öðrum velunnurum.  Fyrsti Íslandsmeistaratitill ÍR í körfu síðan 1998 eða 1999, rétt þegar þessir guttar voru um það að skríða í heiminn.  Rosalega flottir strákar, ekki bara á körfuboltasviðinu heldur almennt góður hópur.  Það verður vonandi gaman að fylgjast með þeim eitthvað áfram.

Einbeiting

Þessi vildi ekki ofaní

Einlægur fögnuður

Sigurhringur

Meistari

Íslands- og bikarmeistarar 2014

Tölfræði leiksins

Engin ummæli: