sunnudagur, maí 04, 2014

Úr númer 32, í númer 32, í númer 32

Eftir að við, lengst af hjónaleysin, rugluðu saman reitum upp á Akranesi, seint á síðustu öld, þá höfum við búið á nokkrum stöðum en þó kannski ekki neitt rosalega mörgum, miðað við að einhverjir fyndist þetta vera rosalega mörg ár.
Fyrsta formlega samlífið var upp á Akranesi, á heimavistinni hjá FVA en það fékkst í gegn eftir að við skiluðum inn undirskrifuðum viljayfirlýsingum frá foreldrum og forráðamönnum okkar þar sem þessi ráðahagur var samþykktur.  Þetta var þarna um haustið 1994 eða eftir áramótin 1995.  Undirritaður fékk svo ekki lengur inn á heimavistinni á haustönninni 1995 þar sem formlega átti ég að vera búinn með mína skólagöngu en skiptin frá Laugarvatni yfir á Akranes töfðu karlinn aðeins, misræmi úr bekkjarkerfinu yfir í áfangakerfi var ekki að gera neitt sérstakt fyrir mig þegar viðkomandi skólar voru að meta karlinn.  En við leigðum okkur þá risloft út í bæ á Akranesi, á Vesturgötunni nánar tiltekið, Vesturgata nr hundrað og eitthvað.  Sigga fer svo út sem au-pair til USA í ársbyrjun 1996 en ég fer í Grundarfjörðinn og fer á sjó og tek síðustu tvo kúrsana utanskóla.  Ég byrja í HÍ um haustið 1996 og fæ inni hjá Magga og Bíbí, því mikla heiðursfólki, í Baugatanga 7.  Sigga kemur svo heim fyrir jólin það árið og við fáum að vera í Baugatanganum á meðan við bíðum eftir íbúð á Stúdentagörðunum.  Þar fáum við inn í nýrri íbúð líklega haustið 1997, í Eggertsgötu 32.  Búum þar þangað til ljóst er að frumburðurinn er væntanlegur og hlutafall mitt hvað vinnu og skóla varðar var sífellt að aukast, skólanum í óhag.  Göngum frá kaupum á íbúð í Eyjabakka 32 í ársbyrjun 1999 og flytjum inn í apríl sama ár.

Síðan hafa liðið fjölmörg ár.  Og á þeim árum, sérstakalega hinum síðari, tók maður stundum tímabil þar sem fasteignasíður blaðanna hafa verið meira lesin en öðrum stundum eða fasteignir.is urðu oft hluti af reglulegum netrúnti.  3-4 sinnum fórum við að skoða íbúðir með mismiklum áhuga en einu sinni urðum við það áhugasömu að við fórum að ræða tölur við fasteignasalann.  Þá ákvað eigandinn þó að hætta við sölu þannig að það fór aldrei lengra.  Þetta var um þetta leyti ársins fyrir ári síðan og maður varð smá svekktur að þetta fór ekki lengra.

Það svo kom boltanum af stað aftur var símtal frá fyrrverandi samstarfsmanni mínum sem var að hefja sinn fasteignasalaferil.  Hann hafði persónulega verið staddur í þessum pakka fyrir rúmu ári eða svo og ég hringdi í hann þegar ég var í mínum pælingum fyrir ári þannig að hann vissi að ég var eitthvað að spá í að hugsa mér til hreyfings.  Hann var sem sagt að leita sér að mögulegum sölueignum og bað mig um að hugsa þetta í nokkra daga.  Í kjölfarið kíkti ég á netið, svona aðeins til að sjá hvað væri í boði þann daginn því ekki selur maður án þess að hafa eitthvað plan hvert maður sé að fara.  Þar sá ég parhús upp í Seljahverfi sem var til sölu, innan þess verðramma sem ég taldi mig mögulega ráða við og fyrsti kostur var alltaf að halda sig við póstnúmer 109.  Að auki var auglýst opið hús þannig að við ákváðum að kíkja, upp í Kögursel 32.  Okkur leist svona vel á að við ákváðum að setja allt í gang með Eyjabakkann, hvort við gætum selt hann áður en Kögurselið seldist.  Það var því allt sett á fullt, Eyjabakkinn var settur á sölu á netið á fimmtudagskvöldið 7. nóvember 2013 og jafnframt auglýst að það yrði opið hús nk sunnudag, 10. nóvember.  Á sunnudeginum gerði þetta líka vitlausa veðrið með snjókomu og okkur leyst ekkert á blikuna, héldum jafnvel að það myndi engin koma að skoða.  Fór þó svo að 8 pör mættu á svæðið, misáhugasöm eins og gengur og gerist.  Fengum þó tvö tilboð strax eftir helgina, annað var nóg gott að við töldum.  Samþykktum það og gerðum tilboð með það sama í Kögurselið.  Það hafðist í gegn og því á réttri viku frá því að við settum Eyjabakkann á sölu var hann seldur og Kögurselið keypt.  Við vorum með eitthvað plan B, tvö raðhús í Fellunum voru á sölu og svo var einhver möguleiki á einhverju upp í Grafarvogi en þetta var okkar langfyrsti kostur og í raun það eina sem við ætluðum okkur, það átti bara að láta þetta ganga upp.

Flutningarnir gengu þokkalega fyrir sig.  Ég tók mér frí í nokkra daga og það tók okkur rúma viku frá því að við fengum Kögurselið afhent, um mánaðarmótin janúar/febrúar þangað til að við skiluðum lyklunum af Eyjabakkanum.  Þetta var helv... törn en við máluðum nánast alla Kögurselið áður en við fluttum inn og mikið ofboðslega var mikið af drasli sem við vorum búin að sanka að okkur öll þessi Eyjabakkaár.

Nú erum við s.s. búinn að vera í Kögurselinu í rúma 3 mánuði og líkar rosalega vel.  Höfum verið mjög róleg í að koma okkur fyrir, þ.e. bílskúrinn en ennþá fullur af kössum með einhverju dóti sem enginn virðist sakna á þessum tímapunkti.  Þó búið að græja eitt stykki forstofuskáp, trampólín komið út í garð og nokkur mál komin á teikniborðið.  Allir sáttir og það er fyrir öllu.

Nýji kofinn - nr 32 eins og venjulega

Engin ummæli: