mánudagur, júlí 06, 2015

N1 mótið á Akureyri 2015


N1 mótið var haldið á Akureyri núna í síðustu viku og þar var Logi Snær að keppa með ÍR.  Þar sem mótið byrjaði á miðvikudegi þá var ákveðið að leggja af stað á þriðjudeginum.  Við vorum með íbúð á Akureyri þannig að þetta var ekkert spurning um að lágmarka tjaldnætur.  Ferðahópurinn minnkaði reyndar um einn á mánudeginum þegar Ísak Máni fékk, svona frekar óvænt, vinnu í Hagkaup í Smáralindinni.  Hann hafði mætt þangað með umsókn áður en við fórum út til Spánar og hafði þá fengið þau svör að líklega væri ekkert í boði fyrir hann en ef það væri eitthvað þá væri það í júlí.  Hann var fékk símtalið á mánudegi og mætti samdægurs í viðtal og var svo boðaður í kennslu á þriðjudeginum þannig að hann missti af Akureyri.

Innkast tekið og mamman og Daði á kantinum

Þokkalegt veður þegar við renndum í bæinn á þriðjudeginum en samt aðeins þungt yfir.  Á miðvikudeginum, fyrsta keppnisdegi, var aðeins farið að rigna.  Árið áður hafði verið eitt það versta veður í sögu mótsins, þá rigndi nánast öllu sem hægt var að rigna, hluta leikjanna var aflýst og vellirnir voru rústir einar, þannig að smárigning var víst ekkert til að væla yfir.  Logi Snær var á yngra ári og liðið hans var í D-liðum en þeir spiluðu einn leik þarna fyrsta daginn, öruggur sigurleikur gegn Skallagrím.  Logi tók sig til og setti eitt mark í upphafi síðari hálfleiks en því miður vorum við Daði Steinn ekki mættir eftir klósettferð í hálfleik þannig að hann þurfti bara að leika þetta fyrir okkur síðar um kvöldið.

Menn létu ekkert vaða yfir sig

Daði Steinn eitthvað að spá í þetta


Á degi tvö var blautt yfir eftir gærdaginn og smá rigningarúði en ekkert alvarlegt.  Þrír leikir þann daginn, á móti Stjörnunni, Keflavík og ÍBV en þeir leikir unnust allir.  Þriðji keppnisdagurinn hófst á sigri á Breiðablik sem þýddi að síðasti leikurinn í riðlinum, við færeysku gestina í Viking, var úrslitaleikurinn í riðlinum.  Sá leikur tapaðist reyndar, 5:3, sem skipti í raun ekki höfðumáli því menn voru komnir í 8-liða úrslit.  Sá leikur var spilaður þarna á föstudagskvöldinu og þar hafðist 2:1 sigur og því ljóst að framundan var undanúrslit á laugardeginum og menn væru aldrei að enda neðar en 4 sætið.

Laugardagsmorguninn hófst því með undanúrslitaleik á móti Aftureldingu.  Þar hafðist 2:0 sigur og menn komnir í úrslitleik D-liða.  Á sama tíma á vellinum við hliðina mættust vinir okkar frá Færeyjum liði KR í hinum undanúrslitaleiknum og þar höfðu þeir færeysku betur og því ljóst að við myndum mæta þeim aftur en s.s. nú í hreinum úrslitaleik.  Það var svo fínasta umgjörð um úrslitin, þjóðsöngurinn spilaður fyrir leik og flottir dómarar sem voru að dæma.
En ekki hafðist að sigra þá færeysku í seinna skiptið, 4:3 tap var það í þetta skiptið eftir mikla baráttu.  Minn maður var nú ekkert rosalega lengi að jafna sig á þessu og var farinn að leika sér í fótbolta með litla bróður sínum örlitlu síðar á meðan við biðum eftir lokahófinu.  Það var vitaskuld ekki hægt að sleppa því og bruna beint til Reykjavíkur þar sem árangurinn var svona góður, menn þurftu jú að fá að fara upp á svið og taka á móti verðlaununum sínum.  Við tókum strauið heim eftir það, vorum ekki með íbúðina lengur og lögðum þetta á okkur.  Planið var menn myndu nú sofna á leiðinni en af einhverjum ástæðum gekk það eiginlega ekki.  Það voru því frekar lúnir ferðalangar sem skriðu heim í Kögurselið um hánóttin en þeim mun ljúfara að skríða upp í sitt eigið rúm.

Hoppað upp úr tækingu

Silfurbikarinn

Engin ummæli: