þriðjudagur, júlí 14, 2015

Daði Steinn byrjaður í boltanum

Það kom að því, allt er þá þrennt er og svoleiðis en í dag fór Daði Steinn á sína fyrstu fótboltaæfingu hjá 8. flokki ÍR.  Hann hefur verið ansi öflugur hérna heima í stofu og einnig stundum fengið að fljóta með Loga Snæ út á völl í tuðruspark.  En allar umræður um að mæta á fótboltaæfingar fengu lítinn hljómgrunn, jafnvel þótt Markús, einn besti vinur hans úr leikskólanum, væri að æfa.  Drengurinn samt að öðru leyti mjög áhugasamur, var vel inn í hlutunum á HM 2014, átti orðið dágott safn af fótboltamyndum og -treyjum, og talaði að jafnaði digurbarkalega um eigin getu í þessari íþrótt.  En að mæta á æfingar var ekki inn í myndinni.  Við hjónakornin teljum okkur hafa séð eitt og annað í þessum fræðum, svona með þriðja drenginn, þannig að við vorum sultuslök með þetta allt saman og leyfðum honum bara að ráða þessu - hann færi einfaldlega af stað þegar og ef hann sjálfur vildi.

Búið að vera talsverður fótboltapakki í kringum Loga Snæ eftir að við komum frá Spáni, skelltum okkur nánast beint á N1 mótið á Akureyri með öllu sem því fylgdi og þar fylgdi Daði Steinn með í þeim pakka.  Svo var Logi að keppa á Íslandsmótinu á ÍR-vellinum í gær, á móti Gróttu þar sem hann skoraði annað markið í 2:0 sigri.  Við vorum að horfa, mínus Ísak Máni sem var að vinna, og Daði fer eitthvað að ræða við mömmu sína á meðan leiknum stendur.  Eitt leiðir af öðru í þeirra samtali og upp úr kemur að drengurinn vill prófa að fara á fótboltaæfingu hjá ÍR.  Það var þá lítið annað að gera en að kíkja á æfingatöfluna um kvöldið og í ljós kom að það var æfing næsta dag.  Drengurinn var grjótharður í ætla að mæta, græjaði sig í heljarinnar græjur, legghlífar og takkaskó frá Loga, innanundirföt sem voru líka frá Loga en yst var nýji Barcelona búningurinn sem keyptur var út á Spáni.  Markús mætti líka og í heildina voru þetta 13-14 strákar en aðra þekkti hann ekki.  Þetta var frekar klassískt allt saman, stórfiskaleikur í upphitun, svo einhverjar tækniæfingar áður en endað var á smá spili.  Þeim var skipt upp í tvo hópa og Daði Steinn lenti klárlega í getuminni hópnum, líklega af því að hann var nýr en hann pakkaði þessu saman, svona algjörlega kalt mat.  Fór m.a. illa með einhverja gutta þarna í einn-á-einn, stóð einnig í marki í einni æfingunni þar sem hinir drifu varla á markið.  Endað svo á "æfingaleiknum" eins og hann kallaði þetta og skoraði tvö mörk og stýrði þessu eins og herforingi, á meðan aðrir voru frekar týndir.  Ég skal alveg viðurkenna að ég var að vonast til að hann fengi nú smá meiri mótspyrnu svona aðeins til að lækka rostann, keppnisskapið var full mikið á köflum þarna fannst mér.

En alla vega, þetta er byrjað og aftur æfing á fimmtudaginn.

Helgi, varamarkmaður meistaraflokks og þjálfari

Menn brosa þegar vel gengur

Hornspyrna

Mark og þá taka menn "slædið"

Sáttur eftir fyrstu æfinguna

Engin ummæli: