Valur - KR í úrslitum bikarkeppni KSÍ. Valur í úrslitum í fyrsta sinn síðan 2005. Það var eiginlega ekki hægt annað en að mæta.
Dró aðeins úr mér að Ísak Máni var ekki ferðafær en ég ákvað að láta reyna á þetta og Logi Snær og Daði Steinn voru tilbúnir að fara, þótt þeir væru ekki alveg að átta sig á því út í hvað þeir voru að fara. Við vorum mættir vel tímanlega og fengum fínustu sæti, Valsmegin vitaskuld og þegar upp var staðið vorum við þeim megin á vellinum sem mörkin komu. Tíðindalítill fyrri hálfleikur og rólegt framan af síðari hálfleik. Valsara þó líklegri en KR-ingar ekki að skapa sér neitt. Ég var farinn að hafa smá áhyggjur af því að við værum mögulega að fara út í framlenginu, var ekki að sjá og skynja að mínir drengir hefðu úthald í það. En Bjarni Ólafur Eiríksson og Kristinn Ingi Halldórsson sáu til að svo varð ekki, með mörkum á 71. og 87. mínútu og Valur bikarmeistari 2015. Ég held að KR hefði getað spilað eitthvað fram á sunnudag án þess að skora. Tæplega 6.000 manns á vellinum, það mesta á bikarúrslit síðan 1999. Strákunum fannst svolítið gaman að því að fyrir aftan okkur sat Kale-dóttir, markvarðar Vals, og hún kallaði jafnan inná þegar pabbi hennar greip fyrirgjafir, sem var eiginlega það eina sem hann þurfti að gera í leiknum, "gott pabbi" eða "vel gert pabbi".
Fékk smá deja-vú þarna í Valsgleðinni á Laugardalsvellinum, ekki ósvipað þegar Valur varð Íslandsmeistari síðast 2007 en þá tryggðu þeir sér titilinn einmitt á Laugardalsvelli vegna framkvæmda á Valsvellinum. Þar vorum við Ísak Máni og þetta var ekki ósvipað.
|
Bræðurnir - Daði Steinn í ÍR gallanum |
|
Þrennan |
|
Fyrst ÍR vann þetta ekki þá var þetta draumaniðurstaða |
Engin ummæli:
Skrifa ummæli