Logi var búinn að spila fyrsta leikinn af þremur þann daginn, þeir unnu og Logi skoraði sigurmarkið. Við fjórir fengum okkur smá í gogginn í félagshúsinu við völlinn hjá Selfyssingum, klassískar grillaðar samlokur og pylsur. Þarna við völlinn þar sem Logi átti að spila leik nr 2 var smá grasbali með pínulitlum mörkum. Við ákváðum, til að drepa tímann, að taka smá 2-á-2 fótbolta á þetta, ég og Logi á móti Ísaki og Daða. Þegar þessi annars krúttlegi leikur okkar var að klárast þá gerðist það. Ísak er eitthvað að teygja sig í boltann með vinstri fætinum en nær einhvern veginn að stíga á boltann, missir jafnvægið og hrynur í jörðina. Hægri fóturinn sem hann stendur í harðneitar hinsvegar að færa sig úr stað og allur þunginn á drengnum lendir ofan á þeim fæti. Á þess að fara út í einhverjar öfgakenndar hádramatískar, þriggja klúta lýsingar þá get ég staðfest að ég heyrði smellinn í fætinum og sá óeðlilega afstöðu á hægri fætinum þegar aumingja drengurinn hrundi í jörðina. Bættu við svakalegum viðbrögðum hjá honum og þá var alveg greinlegt að við vorum ekkert í neitt sérstökum málum. Ég þorði ekki annað en að skutla mér á hann svo hann myndi vera kyrr, reif upp símann og hringdi í 112. Að dreif eitthvað fólk og aðstoðaði okkur á meðan við biðum eftir sjúkrabílnum. Sú bið varð reyndar tæpur hálftími þar sem þessir hefðbundu tveir sjúkrabílar sem eru að þjónusta svæðið voru víst ekki að anna eftirspurninni og síðar frétti ég að þegar mest lét þennan dag voru þeir alls sjö að sinna verkefnum. Logi og Daði voru strax settir í fóstur með liðinu hans Loga en þeir voru eðlilega smá skelkaðir.
Ísak Máni var dópaður upp þarna á grasinu og fóturinn spelkaðar og drengurinn fékk sínar 15 mínútur (eða þennan hálftíma) af frægð enda talsverð traffík gangandi fólks þarna um svæðið, af strákum sem voru að keppa og foreldrum þeirra. Farið var með hann upp á sjúkrahúsið á Selfossi í myndatöku en guttinn var alveg út úr heiminum, bullaði um einhver form og liti en bleiku filarnir komu reyndar ekki. Úr því kom, að leggurinn var brotinn, bæði beinin í sundur en ökklinn slapp. Sigga fékk mömmu sína til að skutla sér upp á Selfoss og tók hina tvo drengina úr fóstri á meðan ég var á spítalavaktinni. Niðurstaðan var sú að Ísak þurfti að fara í aðgerð á fætinum, til að bolta beinin saman, aðgerð gerð í Reykjavík. Þannig að drengurinn var gifsaður, fyrir flutninginn og við fengum sjúkrabílaflutning frá Selfossi upp á Barnaspítala þarna seint á föstudagskvöldinu svo hann gæti farið í aðgerð á laugardeginum. Ég gisti þarna, svona að nafni til en það var s.s. ekki mikið sofið.
Laugardagurinn hófst í raun bara á bið eftir aðgerðinni en hún var framkvæmd fljótlega eftir hádegið, í Fossvoginum þannig að við þurftum að fá transport í sjúkrabíl þangað. Aðgerðin gekk vel og þegar Ísak var orðinn þokkalega brattur eftir vakningu af svæfingunni var okkur skutlað aftur í sjúkrabíl upp á Barnaspítala. Vel áliðið á daginn og því var ákveðið að halda honum aðra nótt á spítalanum, svona til að sjá hvernig þetta myndi þróast. Þannig að við tókum aðra nótt á Barnaspítalnum. Í morgun leit þetta vel út, strákurinn orðinn nokkuð brattur miðað við aðstæður og því ekkert annað en að koma sér heim. Amma hans kom úr Mosó og hjálpaði okkur upp í Breiðholtið en Sigga var á Selfossi enda hafði hún haldið uppi stífum áætlunarferðum fram og tilbaka á Selfoss með Loga og Daða á fótboltamótinu. Liðið hans Loga gátu ekki hætt að vinna og Logi skoraði eins og það væri enginn morgundagur sem endaði á besta veg, með sigri í sínum riðli og bikarinn í Breiðholtið.
Þannig að ljóst er að Ísak Máni er ekki alveg að fara reima á sig körfuboltaskóna strax og mun eiga svaðalega innkomu í Kvennó, sem "businn á hækjunum". Ég reyni að sjá broslegu hliðina á því að ökukennarinn sem ég var að vinna í því að taka Ísak í tíma hringdi í mig ca 3 tímum eftir að við komum heim í dag til að bjóða honum að byrja á þriðjudaginn. Allir sem komu að þvi máli voru sammála um að setja það á ís. Gifs næstu 6-8 vikurnar, ein af þessum brekkum í lífinu, verkefni sem þarf að leysa, áður en partýið verður keyrt aftur í gang á fullu gasi.
Bæði beinin í sundur |
Kominn heim með ferlíkið á fætinum |
Logi Snær átti frábært mót |
Liðið hans Loga |
Engin ummæli:
Skrifa ummæli