sunnudagur, apríl 16, 2006

Borðað út í eitt á stórafmælisdögum sem öðrum dögum í Grundarfirði

Páskafrí í Grundarfirði. Ávísun á útkýlda vömb og legusár. Nei, reyndar ekki nema að hálfu leyti rétt. Nóg er étið hérna, það er á hreinu, en með tilkomu sparkvallarins og það að eldri syninum finnst gaman að vera þar þá lendir maður stundum í því að dröslast þangað út eftir. Sem er hið besta mál eftir allt átið. Það hjálpar ekki til að mamma átti afmæli núna 13. og Sigga átti afmæli í gær. Hér eru því kaffiboð ofan í allt saman. Ef það er eitthvað sem lýsir þessu best þá sagði mamma eitt hérna í gær þegar hún var að ganga frá kökunum og öðru bakkelsi eftir að einhverjir gestanna voru farnir: ”Það gengur ekkert á brauðið núna” Kemur á óvart? Neibb, ekki vitund því menn seilast frekar í tertusneiðar, pönnukökur og fleira í þeim dúr. Ristað brauð með osti má bíða þangað til eftir páska.

Sigga átti afmæli í gær eins og fram kom hérna áðan, stór pakki, heil 30 kvikindi komin í hús. Eitthvað um gesti hérna en mér skilst að það verði einhver smá kaffiboð heima á fimmtudaginn nk. þar sem tekið verður á móti pökkum eitthvað fram eftir deginum.

Páskaeggjadagur í dag. Menn mættu snemma í morgunmat en búið var að semja um að það yrði annað hvort hafragrautur eða Cheerios svo ekki yrði byrjað á eggjunum á tómum maga sem yrði bara ávísun á tómt rugl. Ég átti, strangt til tekið, ekkert egg en hafði gert mér vonir um að fá kannski eina væna flís hjá drengjunum. Ég tók mér því snemma hrægammsstöðu fyrir aftan þá og beið færis. Annars finnst mér allir voða rólegir yfir þessum páskaeggjum, svona miðað við allt umtalið og lætin. Kannski eru bara allir búnir að borða yfir sig að öðrum kræsingum.

Engin ummæli: