laugardagur, apríl 22, 2006

Giftingaleti

Var einhverntímann að velta því fyrir mér á þessum miðli hvort ég væri örlítið letiblóð og vísaði þá í samtal mitt við núverandi umhverfisráðherra. Það er nefnilega í einu atriði sem ég velti stundum fyrir mér hvort ég sé bara hreinræktaður letingi.

“Hvenær ætlar þú að gifta þig?” Spurning sem er stundum beint að mér af ýmsu fólki, þó aðallega nánustu fjölskyldumeðlimum og vinum. Svarið er bara það að ég veit það ekki. Við Sigga erum búin að vera saman í 12 ár, í dag nánar tiltekið. Magnað. Sem er talsverður tími svona þegar ég fer að spá í það.

Það stefnir í allt að ég verði síðastur af systkinunum að láta verða af því að gifta mig. Kannski ekki að marka með Villa, hann hefur einhver tíu ár í forskot á mig og þrettán á Jóhönnu. Hann gifti sig árið 1986, nokkrum dögum fyrir 22ja ára afmælið sitt og Gulla, konan hans, var 19 ára. Þau eiga sem sagt 20 ára brúðkaupsafmæli í lok ársins og þá getur Gulla sagt með réttu að hún hafi verið gift Villa meira en helming ævinnar. 22ja ára, ef ég uppfæri þetta á mig þá var maður algjör kjúklingur í minningunni þegar ég var 22ja ára, að ekki sé talað um 19 ára. Svo er Jóhanna að fara gifta sig næsta haust... held ég. Ég held að hún haldi það líka. Vona að mannsefnið hennar haldi það líka.

Okay, ég hef sem sagt smátíma til að ná öðru sætinu, ef maður myndi setja allt í gang. Nei, ég veit ekki, veit ekki hvort maður hafi verið að bíða eftir því að á einhverjum tímapunkti í lífinu myndi maður detta í einhvern brúðkaupsgír. Ég man eftir 2000 bylgjunni, það var ekkert smá kúl að gifta sig árið 2000, allar kirkjur landsins voru uppbókaðar allar helgar þá um sumarið með 2ja ára fyrirvara eða eitthvað álíka. Ekki kom brúðkaupsgírinn þá yfir mann.

Ég nenni bara ómögulega þessum krúsidúllum sem þessu virðast eiga að fylgja, allt frá einsöngvurum niður í servíettur. Er það eitthvað óeðlilegt? Á ég að skammast mín eitthvað fyrir það? Verður maður að leigja sal og kirkju, fá Jón Sig til að syngja, láta sérsauma á mig og drengina föt eins og Beckham gifti sig í, bjóða öllum sem maður svo mikið sem yrt á í gegnum ævina, leigja hestvagn fyrir mig og frúnna, dreifa rósarblöðum út um allt og fljúga svo til einhverrar eyju í Kyrrahafinu morguninn eftir?

Svei, ég veit ekki. Kannski er ég bara að gera úlfalda úr mýflugu. Andskotinn sjálfur, maður þarf varla að hafa þetta svona copy – paste úr Brúðkaupsþættinum Já. Ég er samt ekki að tala um einhverja öfga í hina áttina, að gifta sig neðansjávar eða í fallhlíf.

Ef það er eitthvað sem get sagt að ég sjái hreinlega eftir í þessu ferli er að hafa ekki bara drifið í þessu árið 2004. Þá vorum við búin að vera saman í 10 ára og það hefði verið fín ástæða til að drífa í þessu. Kannski ætti maður að setja stefnuna á 2014.

Uss, nú er ég kominn með þetta í tóma hringi, spurning hvort maður sé búinn að tapa sér. Ætli séu til einhverjar töflur við þessu? Ég held að þetta sé komið á það stig að réttast að drífa í þessu og láta ekki nokkurn kjaft vita. Það er spurning hvort maður kemur bara með fréttirnar hérna á blogginu EFTIR að þessu er lokið...

4 ummæli:

Nafnlaus sagði...

Málið að fljúga bara til Vegas, kaupa 2 hawai skyrtur og láta Elvis gifta sig.... Málið dautt. Sendir svo bara gíróseðil á ættina fyrir gjöfum

Nafnlaus sagði...

Til hamingju með 12 árin í gær, mikið rosalega eruð þið búin að vera saman lengi, ég held að það sé alveg að koma tími á giftingu...munið bara að bjóða mér:-)

Nafnlaus sagði...

Vá 12 ár það er ekkert smá... En ég er á undan Davíð minn farðu nú ekki að skemma það fyrir mér heheh

Brúðkaupskveðjur að vestan

Villi sagði...

Er að hluta til sammála Tomma, nema með staðsetninguna og skyrturnar. Auðvitað komið þið hingað til Namibíu og látið pússa ykkur saman hjá einhverjum frumbyggjaættbálki. Ekki málið. Svo geturðu sagt frá þessu á blogginu þegar öllu er lokið.