föstudagur, júlí 21, 2006

Blindur fær sýn


Þá hefur þessi kappi prufað að fá sér linsur. Fyrir þá sem ekki vita hefur sjónin mín alltaf talist vera með afbrigðum góð og þrátt fyrir að árin færist yfir þá heldur hún enn megninu af sínum gæðum, hvað svo sem síðar verður. Málið var einfaldlega þannig að í gær, sem var einmitt leikdagur hjá Vatnsberunum, þá fékk ég hringingu frá formanni klúbbsins þar sem mér var tjáð að ég þyrfti að koma mínum rassi niður í ákveðna gleraugnabúð hér í bæ og nálgast þar linsur. Þetta voru engar venjulegar linsur heldur einhverjar magnaðar Nike fótboltalinsur sem eiga að hjálpa okkur sem stundum tuðruspark að sjá boltann í mikilli birtu, en einmitt þannig aðstæður voru í gær. Ég reyndi að malda í móinn enda hef ég reglulega þakkað æðri máttarvöldum fyrir það að þurfa ekki standa í svona gleraugna- og linsumálum. Tilhugsunin um að troða einhverju í augun á mér var heldur ekkert rosalega spennandi. Maður lét sig hafa það að koma sér þarna niður eftir enda eru þeir sem ráða þarna ríkjum löglegir meðlimir Vatnsberanna og ljóst að þeir myndu fara með satt og rétt mál í þessu máli sem og öðrum. Eftir stutt samtal var ákveðið að láta slag standa og maður var leiddur í bakherbergi þar sem maður fékk Linsuísetningu 101 á mettíma með tilheyrandi skýringarmyndum. Verð ég að segja að þetta gekk nokkuð vel held ég bara, þó ég segi sjálfur frá. Ég ákvað að hafa bara gripina í augunum, enda ekki nema 3 tímar í leik og óvíst að maður kæmi þessu aftur í sig svona einn og óstuddur. Með þetta í augunum og linsuvökva og linsubox undir hendinni hélt maður út í orangelitaðan heiminn. Ísak Máni var með mér og honum fannst pabbi sinn frekar furðulegur en ok samt. Drengurinn líklega farinn að venjast því að eiga furðulegan faðir. Hann var orðinn frekar svangur og náði með einstakri lipurð að plata mig til að fara á KFC. Þegar við eru á bílastæðinu þar þá fara að renna á mig tvær grímur. Ég er náttúrulega eins og einhver geðsjúklingur með appelsínugul augu! Hvað um það, ég læt mig hafa það enda búið að gefa loforð fyrir þessu. Inn arka ég og reyni að horfa ekki í augun á afgreiðslumanninum, borga og forða mér í sæti. Sit þarna og vona að ég hitti ekki neinn sem ég þekki, forðast að horfa á nokkurn þegar við förum.

Hvað um það, þetta virkaði nógu vel til að við unnum Nings Utd 2:1. Ég spilaði á móti sterkri sól í fyrri hálfleik, derhúfulaus og kom alveg heill frá honum. Það var ekki fyrr en í seinni hálfleik þegar sólin var í bakinu að við Haraldur lögðumst á eitt til að fá spennu í leikinn og gáfum Ningsurum eitt mark. Okkur til happs var okkur bjargað með stórglæsilegu sigurmarki sjö mínútum fyrir leikslok, magnaður Vatnsbera sigur og menn eru enn í toppbaráttunni í C-riðli.3 ummæli:

Nafnlaus sagði...

loksins komu myndirnar inn. þetta er nú ekki beint smart linsur hehe

Villi sagði...

Ókey með linsurnar, en ... er einhver motta að myndast þarna fyrir neðan nefið????

Davíð Hansson Wíum sagði...

Sökum skorts á baðvaski þá hafa hin ýmsu líkamshár fengið að vaxa óáreitt löngum köflum. Mottan og öll þau strá sem voru á neðri helming andlitsins eru nú horfin. Þangað til næst...