mánudagur, júlí 31, 2006

Fréttir síðustu daga


Við létum verða af því af skella okkur til Suðureyrar til Jóhönnu og co. Lögðum af stað á mánudeginum fyrir viku, vorum komin snemma af stað og búin að undirbúa okkur vel, með nesti og nýja skó. Fyrsta stopp var í einhverju veiðihúsi fyrir utan Borgarnes til að sækja Ingu en hún ætlaði að fá að fljóta með okkur eitthvað áleiðis. Svo lá leiðin til Rebekku í Reykhólasveitina en þar var búið að lofa okkur köku sem við og fengum og skoluðum henni niður með alvöru sveitamjólk. Þar sleiktum við sólina í smá stund en sólin var með í för alla leiðina. Næsti viðkomustaður var Flókalundur en þar voru Halli og Jenný með bústað og með þeim voru Guðrún, Jökull og Jenný jr. Við notuðum tækifærið og liðkuðum okkur með smá tuðrusparki ásamt því að fá að borða. Þar skildu leiðir við Ingu en við héldum áfram förinni til Sudureyri City. Þangað renndum við í hlað kl. 21:00, tólf tímum eftir að við yfirgáfum bílastæðið í Eyjabakkanum. Verð að hrósa drengjunum mínum en þeir stóðu sig alveg eins og hetjur í þessum langa rúnti. Held að málið hafi verið að taka bara góðan tíma í þetta, vera með nesti og taka góð stopp og gera smá stemmingu úr þessu. En mikið var gott að komast á leiðarenda. Á Suðureyri og í nærsveitum dúlluðum við okkur í tvo daga í brakandi blíðu og höfðum það rosalega gott.


Á fimmtudeginum var lagt af stað til Grundarfjarðar enda bæjarhátiðin Á góðri stund um helgina og af henni má maður eiginlega ekki missa. Það var sex tíma túr með stoppi og aftur fengu drengirnir mínir plús fyrir frammistöðuna. Ótrúlegur fjöldi af fólki var í plássinum um helgina, öll tjaldstæði pökkuð og í mörgum görðum voru þetta 1-3 tjöld. Eitthvað er komið af myndum á myndasíðuna.

Komið heim í gær en Sigga nennti ekki að stoppa lengi heima heldur fór í bústaðinn undir jökli í dag til að hjálpa við framkvæmdirnar á honum og tók strákana með. Á meðan hef ég það verkefni að fúa inni á baðherbergi hjá okkur. Vonandi leysi ég það fullnægjandi af hólmi.

Síðan fer fríinu að ljúka, mæti í vinnuna á fimmtudaginn og þá byrjar það fjör aftur.

Engin ummæli: